Erlent

Meiri eiturefni mælast í villtum laxi en eldislaxi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ný norsk rannsókn bendir til að meira sé af mengandi eiturefnum í villtum laxi heldur en eldislaxi. Niðurstöðurnar hafa komið mörgum á óvart en fjallað var um rannsóknina í fréttum Stöðvar 2. 

Fyrirfram hefðu sennilega flestir talið að villtur lax, sem veiðist í á, hljóti að vera betri matur en eldislax. En nú er Rannsóknastofnun norska fiskiðnaðarins búin að birta rannsókn sem dregur í efa að það standist. 

Rannsóknastofnunin heyrir undir sjávarútvegsráðuneyti Noregs. Villtur Atlantshafslax sem veiddur var í sjó við strendur Norður-Noregs var borinn saman við eldislax úr sjókvíum við Noreg og reyndist villti laxinn mengaðri. 

Anne-Katrine Lundebye, sem stýrði rannsókninni, segir þessar niðurstöður stangast á við það sem almennt hafi verið talið til þessa. Hún segir þær skýrast af því hvað laxinn sé að éta. Niðurstöðurnar endurspegli mismunandi fæði villta laxins í hafinu miðað við lax í sjókvíum. Í fiskeldi hafi menn stjórn á því hvað laxinn éti en úti í hafinu sé það breytilegt hvað villti laxinn leggi sér til munns, að því er fram kemur í norska vísindavefritinu Forskning.no.

Sjókvíar á Dýrafirði. Í fiskeldi hafa menn stjórn á því hvað laxinn étur.Mynd/Stöð 2.
Kannað var hvort munur væri á næringarefnum og eiturefnum í laxi eftir því hvort hann væri villtur eða eldislax. Rannsóknin leiddi í ljós að í villta laxinum reyndist vera meira ef eiturefnum eins og díoxín, PCB og kvikasilfri heldur en í eldislaxinum. 

Tekið er fram að hlutfall eiturefna í villta laxinum sé þrátt fyrir það mjög lágt og ekki hættulegt heilsu manna. Vísindamennirnir hvetja raunar almenning til að borða meiri lax, hvort sem hann sé villtur eða úr eldi, því báðar tegundir innihaldi álíka af hollum omega-3 fitusýrum. Eldislaxinn reyndist hins vegar marktækt feitari en sá villti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×