Erlent

Gríðarstór, langlífur maðkur fannst í fyrsta skipti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot
Lifandi eintök af hinum sjaldgæfa risatrjámaðki (giant shipworm) hafa fundist í fyrsta skipti. BBC greinir frá.

Maðkurinn, sem getur orðið allt að 155 sentímetrar að lengd, hefst við í harðri skel, sem eftirsótt er meðal safnara. Vísindamenn hafa lengi verið meðvitaðir um tilvist tegundarinnar en þetta er í fyrsta skipti sem eintök finnast á lífi.

Þrátt fyrir nafngiftina er risavaxni trjámaðkurinn skyldari skelfiskum og kræklingum en ormum. Hann tilheyrir hópi samloka (bivalves) og nær hæstum aldri allra tegunda innan hópsins.

Daniel Distel, höfundur skýrslu um maðkinn, sagði að eftir þrotlausa leit í fræðiritum hafi maðkurinn komið í leitirnar eftir að nemandi hans fann myndband af einum slíkum á YouTube. Í kjölfarið hélt hópur vísindamanna til Filippseyja, nánar tiltekið til Mindanao, þar sem fimm lifandi risatrjámaðkar fundust.

Áður höfðu einu upplýsingarnar um maðkinn verið fengnar úr teikningum og illa varðveittu sýni frá sjöunda áratug síðustu aldar.

Hér fyrir neðan má sjá krufningu á einum risatrjámaðkanna. Myndbandið er ekki fyrir klígjugjarna!




Fleiri fréttir

Sjá meira


×