Erlent

Fundu þrjú kíló af sprengiefni í fórum mannanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglumenn að störfum fyrir utan íbúð annars mannsins sem handtekinn var í dag.
Lögreglumenn að störfum fyrir utan íbúð annars mannsins sem handtekinn var í dag. Vísir/AFP
Franska lögreglan fann þrjú kíló af sprengiefni, þar af einn skammt tilbúinn til notkunar, auk töluverðs fjölda af skotvopnum við handtöku í íbúð í Marseille í Frakklandi í dag. BBC greinir frá.

Mahiedine M., 29 ára, og Clément B., 23 ára voru handteknir grunaðir um að skipuleggja hryðjuverkaárás en greint var frá handtökunni fyrr í dag. Þeir eru báðir franskir ríkisborgarar.

Þá fannst einnig myndband, sem annar hinna handteknu hafði tekið upp. Í myndbandinu sást fáni íslamska ríkisins, vélbyssa og dagblað sem sýndi einn frönsku forsetaframbjóðendanna.

Talið er að mennirnir hafi kynnst í fangelsi og aðhyllst þar íslamska öfgastefnu. Ekki er vitað að hverjum eða hverju árásin átti að beinast.

Franska leyniþjónustan hefur undanfarið rannsakað yfirvofandi hryðjuverkaógn í aðdraganda frönsku forsetakosninganna sem fara fram eftir fimm daga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×