Innlent

Sérsveitin fær fjóra nýja bíla og nýja búninga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sérsveit ríkislögreglustjóra á æfingu en bláu búningunum sem sérsveitarmennirnir sjást hér í verður skipt út fyrir gráa á næstunni.
Sérsveit ríkislögreglustjóra á æfingu en bláu búningunum sem sérsveitarmennirnir sjást hér í verður skipt út fyrir gráa á næstunni. Vísir/GVA
Sérsveit ríkislögreglustjóra mun í vikunni taka í gagnið tvo nýja bíla af gerðinni Ford Police Interceptor. Alls fékk sveitin fjóra nýja bíla afhenta í byrjun árs og verða hinir tveir teknir í notkun síðar en á meðal þess sem þarf að setja upp í bílunum er sérsmíðaður vopnaskápur og talstöðvakerfi.

Sveitin mun svo á næstunni einnig fá nýja búninga og klæðast gráu í stað bláa litarins sem hefur verið einkennislitur sveitarinnar frá því hún tók til starfa.

Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag. Bílarnir eru framleiddir í Bandaríkjunum og aðeins seldir lögregluembættum en þeir njóta meðal annars mikilla vinsælda hjá bandarísku lögreglunni. Þeir eru tæknilegri og kraftmeiri en þeir bílar sem sérsveitin hefur til umráða í dag.

Bílarnir eru 400 hestöfl og með skotheldar hurðar. Þá verður sérstakur vopnaskápur á milli framsætanna í bílunum þar sem verða bæði MP5-hríðskotabyssur og Glock-skammbyssur.

 

Í samtali við Morgunblaðið segir Ásmundur Kr. Ásmundsson, næstráðandi hjá sérsveitinni, að ekki sé verið að bregðast við aukinni hættu með nýja bílaflotanum. Einfaldlega sé um að ræða uppfærslu á tækjakosti sveitarinnar og áttu kaupin sér langan aðdraganda.

Hver bíll kostar um 15 milljónir í króna en um fjórum milljónum krónum ódýrara er að kaupa bíl sem er að mestu fullbúinn en að breyta gömlum lögreglubíl í sérsveitarbíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×