Viðskipti innlent

Um 830 starfsmenn Landsbankans seldu bréfin sem þeim voru gefin

Haraldur Guðmundsson skrifar
Heimild til kaupa á eigin hlutum í Landsbankanum var veitt á aðalfundi hans í apríl í fyrra. Fréttablaðið/Ernir
Heimild til kaupa á eigin hlutum í Landsbankanum var veitt á aðalfundi hans í apríl í fyrra. Fréttablaðið/Ernir
Um 830 núverandi eða fyrrverandi starfsmenn Landsbankans, sem fengu hlutabréf í bankanum gefins árið 2013, ákváðu í fyrra að taka tilboði fyrirtækisins um að selja hlutabréf sín fyrir um alls 1.391 milljón króna. Langflestir þeirra seldu bankanum bréf sín í september eða þegar endurkaupaáætlun fyrirtækisins hófst.

Bankaráð Landsbankans ákvað í september 2016 að bankinn myndi kaupa eigin hluti í bankanum í samræmi við samþykkt

aðalfundar í apríl í fyrra. Endurkaupin skyldu nema allt að 480 milljónum hluta eða tveimur prósentum af útgefnu hlutafé bankans.

Markmiðið með endurkaupunum var að lækka eigið fé og gefa hluthöfum tækifæri til að selja hluti sína sem þeim hafði áður verið óheimilt að gera.

Samkvæmt ársreikningi Landsbankans fyrir 2016 fækkaði hluthöfum um 832 frá árslokum 2015 til loka 2016. Þá hafði bankinn keypt 133,5 milljónir eigin hluta á meðalverðinu 10,42 á hlut að heildarfjárhæð 1.391 milljón króna. Enginn af framkvæmdastjórum bankans seldi.

Þriðju og síðustu lotunni í endurkaupaáætlun bankans lauk 24. febrúar og keypti hann þá alls 8.509.625 hluti á genginu 10,62. Hluthafar bankans seldu þá bréf í félaginu fyrir rétt rúmar 90 milljónir króna. 

Rétt er að taka fram að um 430 fyrrum stofnfjárhafar í Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Norðurlands, sem runnu inn í Landsbankann, voru einnig hluthafar í Landsbankanum þegar endurkaupaáætlunin tók gildi.    






Fleiri fréttir

Sjá meira


×