Handbolti

Valsmenn fara í þriðja ferðalagið til Austur-Evrópu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anton Rúnarsson og félagar fara til Rúmeníu í undanúrslitunum.
Anton Rúnarsson og félagar fara til Rúmeníu í undanúrslitunum. vísir/andri marinó
Bikarmeistarar Vals mæta Potaissa Turda frá Rúmeníu í undanúrslitum Áskorendabikars Evrópu í handbolta.

Valsmenn tryggðu sér sæti í undanúrslitunum með sigri á Sloga Pozega frá Serbíu, 29-26, á laugardaginn. Valur vann útileikinn 27-30 og einvígið samanlagt 59-53.

Potiassa Turda sló Dudelange frá Lúxemborg út í 8-liða úrslitunum. Í 16-liða úrslitunum slógu þeir út annað lið frá Lúxemborg, Handball Esch. Í 3. umferðinni unnu Rúmenarnir svo Dobrudja frá Búlgaríu.

Eftir að hafa unnið Haslum frá Noregi í 3. umferðinni hafa Valsmenn haldið sig á Balkanskaganum. Þeir unnu Partizan frá Svartfjallalandi í 16-liða úrslitunum og svo serbneska liðið Sloga Pozega í 8-liða úrslitunum eins og áður sagði.

Valsmenn eru enn ósigraðir í Áskorendabikarnum í ár en þeir hafa unnið fjóra leiki og gert tvö jafntefli.

Fyrri leikurinn gegn Potaissa Turda fer fram á heimavelli Vals 22. eða 23. apríl. Seinni leikurinn verður svo ytra 29. eða 30. apríl.

Í hinni undanúrslitaviðureigninni mæta Hurry-Up frá Hollandi og Sporting frá Portúgal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×