Viðskipti innlent

Júlíus einnig til liðs við Kviku

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kvika er að ráða.
Kvika er að ráða. Vísir/GVA
Júlíus Heiðarsson hefur verið ráðnir til markaðsviðskipta Kviku en hann hefur verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi og starfað fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu.

Líkt og Vísir greindi frá í morgun hefur Arnar Arnarsson einnig verið ráðinn til Kviku en hann kemur frá Landsbankanum þar sem hann hefur starfað um árabil.

Í tilkynningu frá Kviku segir að Arnar og Júlíus hafi starfað á fjármálamörkuðum um árabil og hafa mikla reynslu og þekkingu á verðbréfamörkuðum, jafnt innanlands sem erlendis.

Júlíus Heiðarsson hóf störf hjá Landsbréfum árið 2000 við verðbréfamiðlun á bandarískum og evrópskum mörkuðum. Árið 2001 var Júlíus ráðinn til Landsbankans þar sem hann starfaði til ársins 2009 við verðbréfamiðlun, eigin viðskipti og sem sérfræðingur í markaðsviðskiptum. Árið 2010 var Júlíus ráðinn forstöðumaður markaða hjá Horni fjárfestingarfélagi og 2012 fór hann yfir til Landsbréfa þar sem hann starfaði sem sjóðstjóri. Frá árinu 2015 hefur Júlíus verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi og starfað fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, líkt og áður sagði.

Arnar hefur verið einn helsti verðbréfamiðlari Landsbankans um langt skeið og starfað í markaðsviðskiptum bankans allt frá árinu 2003. Þar áður var hann hjá Búnaðarbankanum á árunum 2000 til 2003. 

Með ráðningu Arnars og Júlíusar er Kvika að bregðast við brotthvarfi tveggja starfsmanna í verðbréfamiðlun en þeir Sigurður Hreiðar Jónsson og Jón Eggert Hallsson hættu störfum hjá bankanum með skömmu millibili annars vegar í árslok 2016 og hins vegar í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×