Handbolti

Þjálfara Fram var ráðið frá því að taka við liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, segir að sér hafi verið ráðið frá því að taka við liðinu í sumar.

Fram missti bróðurpartinn úr sínum leikmannahóp í sumar auk þess sem þjálfarinn Guðlaugur Arnarsson hætti. Reynir Þór Reynisson tók við en entist aðeins nokkrar vikur í starfi. Þá kom Guðmundur Helgi til skjalanna og tók við Fram-liðinu sem hann lék með á sínum tíma.

„Ég talaði við nokkra fyrir þetta og menn voru á því að ég ætti ekki að láta slag standa. En ég leit á þetta sem áskorun, lét vaða og sé ekki eftir því í dag,“ sagði Guðmundur Helgi í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Fram var spáð neðsta sæti deildarinnar og flestir voru á því að liðið myndi ekki ná í mörg stig í vetur. En sú varð ekki raunin því hið unga lið Fram bjargaði sér frá falli í næstsíðustu umferð Olís-deildarinnar og endaði að lokum í 6. sæti eftir góðan endasprett. Fram mætir Íslandsmeisturum Hauka í 8-liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.

„Við tókum inn unga leikmenn og nýttum það sem til var. Þetta eru flottir strákar sem hafa lagt sig 100% fram. Þegar menn gera það og hafa gaman að er hægt að gera fullt af góðum hlutum,“ sagði Guðmundur Helgi.

„Mér finnst deildin hafa verið mjög góð í vetur. Góðir leikmenn komu til baka og þetta var skemmtilegt.“

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Þessi lið mætast í úrslitakeppninni

Deildarkeppni Olís-deildar karla lauk í kvöld og eftir harða baráttu í allan vetur er ljóst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×