Menning

Myndlistin skapar sjálfsmynd okkar sem þjóðar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Í mínum huga er safnið menntastofnun,“ segir Rakel um Listasafn Íslands. Hún verður með leiðsögn um sýninguna Fjársjóður þjóðar á sunnudaginn klukkan 14.
"Í mínum huga er safnið menntastofnun,“ segir Rakel um Listasafn Íslands. Hún verður með leiðsögn um sýninguna Fjársjóður þjóðar á sunnudaginn klukkan 14. Vísir/Vilhelm
Mér finnst þetta ætla að verða skemmtileg sýning. Hér eru verk frá árdögum íslenskrar myndlistar og allt til samtímans, breitt úrval og mikil fjölbreytni,“ segir Rakel Pétursdóttir safnafræðingur um sýninguna Fjársjóður þjóðar sem verið er að setja upp í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg.

Sýningin er sett upp í tímaröð og byrjar í austursal efri hæðar þar sem Sumarnótt – Lómar við Þjórsá eftir Jón Stefánsson tekur á móti gestum.

Fyrstu áratugina byggðist safneignin upp á höfðinglegum gjöfum, að sögn Rakelar, fyrst málverkum eftir erlenda listamenn en upp úr aldamótunum 1900 urðu verk eftir Íslendinga æ meira áberandi.

„Hér eru mörg þekkt verk innan um önnur sem ekki hafa verið sýnd oft áður, að minnsta kosti ekki síðan safnið flutti hingað á Fríkirkjuveg. Myndir eftir erlenda listamenn sem komu hingað í leiðangra, gagngert til að mála, stundum að tilhlutan konungsins. Eflaust hafa þær myndir haft mótandi áhrif á þá sem þær sáu.“

Rakel vekur athygli á gömlum skáp úr Safnahúsinu við Hverfisgötu, hann geymir nokkur þrívíð verk. „Hér er verið að vísa í söguna,“ segir hún og bendir líka á lágmynd af Klettafjallaskáldinu Stephan G., eftir Ríkarð Jónsson myndskera.

Abstraktmynd eftir bróður hans, Finn Jónsson, frá 1925 stingur í stúf við önnur verk í þessum sal. „Finnur fór til Þýskalands og kynntist þar framúrstefnu í myndlist en fékk litlar undirtektir á sýningu sem hann hélt hér heima þetta ár, 1925,“ lýsir Rakel.

Bassabáturinn, stórt lykilverk hjá Gunnlaugi Scheving, sýnir tvo menn um borð í bát að leggja línu og Rakel segir gamlan sjómann hafa sagt henni nákvæmlega allt um hlutverk bassans í bátnum.

„Í gegnum tíðina getur maður safnað ógrynni af sögum frá gestum sem koma á safnið sem bæta sífellt einhverju við verkin,“ segir hún og ætlar að gefa orðið laust af og til á sunnudaginn þegar hún verður með leiðsögn um þessa sýningu sem hefst klukkan 14. Þar ætlar hún að fara yfir sögu og þróun myndlistar á Íslandi með vísun í erlenda strauma og stefnur.

„En ég ætla ekki að tala allan tímann. Mig langar líka að gefa gestum tækifæri til að spjalla um þessi verk,“ segir hún.

Tvær myndir eftir Edvard Munch prýða veggi salarins og vatnslitamyndir eftir Sölva Helgason sem kallaði sig Sólon Íslandus eru í einu horninu, auk þess sem Muggur kemur við sögu.

Kristín Jónsdóttir var ein af fyrstu íslensku konunum sem gaf sig listinni á vald. Konur við þvotta og að breiða fisk á tún voru meðal yrkisefna hennar. Júlíana Sveinsdóttir kom í kjölfar hennar. Rakel segir þátttöku kvenna í myndlist á Íslandi merkilega og nefnir Þóru Pétursdóttur sem stofnaði teikniskóla sem Þórarinn B. Þorláksson sótti tíma í.

Nýrri verk eru í næsta sal. Rakel vekur athygli á Skilningstré Kjarvals. „Mér finnst gaman að tengja þessa mynd við átökin í myndlistarlífinu, þegar formbyltingin var að ryðja sér til rúms. Hér er einkennilegt tré sem er hálf abstrakt og listamenn í kring á hestum eins og villuráfandi og vita ekki í hvaða átt þeir eiga að fara. En Kjarval blandaði sér aldrei persónulega í þessar deilur.“

Þarna eru verk eftir Guðmundu Andrésdóttur, Svavar Guðnason og Nínu Tryggvadóttur. Einnig Jón Engilberts, Snorra Arinbjarnar og fleiri.

Formrænt verk eftir Gerði Helgadóttur og dansskúlptúr Ásmundar Sveinssonar spila skemmtilega saman á miðju gólfi og Nína Sæmundsdóttir á þar líka eitt.

Nú færum við okkur yfir í vestursalinn. Þar eru enn nýrri verk. Fánarnir eftir Birgi Andrésson sem var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum 1995, sem dæmi. Einnig ljósmyndaverk eftir Ólaf Elíasson og annað eftir Pétur Thomsen. SÚM-ararnir sem stóðu fyrir róttækri framúrstefnu í myndlist eiga þar sinn sess, Hreinn Friðfinnsson, Magnús Pálsson og Gylfi Gíslason sem málaði Fjallasúrmjólk 1971, með vísun í Fjallamjólk Kjarvals.



Íslandslag – verk eftir Svavar Guðnason af umdeildri sýningu 1945. Mynd/Listasafn Íslands
Samsetningar Margrétar H. Blöndal úr fundnu efni eru í þessum sal. Svo eiga Dieter Roth og bræðurnir Sigurður og Kristján Guðmundssynir verk þar líka. „Kristján sagði einhvern tíma eitthvað á þá leið að listin ætti ekki að vera skoðanamyndandi heldur vitundarmótandi. Kristján er ekki maður margra orða en þegar hann segir eitthvað er það mjög djúpt,“ segir Rakel með lotningu.

Rakel segir mikilvægt að lyfta fram verkum genginna kynslóða en líka gaman að setja þau í nýtt samhengi til að læra eitthvað nýtt. „Myndlistin skapar sjálfsmynd okkar sem þjóðar,“ bendir hún á.



Hún segir það breiðan hóp sem sæki sýningar og þær gefi mörgum mikið. „Það er til dæmis gaman að fá hingað börn og ungmenni sem verða alveg hugfangin og skoða og rannsaka sjálf. Í mínum huga er safnið menntastofnun. Ég lít á það sem mannréttindi að allir hafi aðgang að þeim menningararfi okkar sem það geymir.“

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. apríl 2017






Fleiri fréttir

Sjá meira


×