Körfubolti

Berglind: Eigum einn gír inni

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Snæfell hefur tryggt sér deildarmeistaratitilinn í Domino‘s deild kvenna. Berglind Gunnarsdóttir, sem hefur leikið afar vel á tímabilinu, hlakkar til úrslitakeppninnar og segir liðið eiga meira inni.

Snæfellskonur hafa unnið 13 af 14 leikjum sínum á seinni hluta tímabilsins og hefur liðið nú þegar tryggt sér deildarmeistaratitil þrátt fyrir að ein umferð sé eftir.

Snæfell hefur leikið frábærlega undanfarin ár og getur orðið fyrsta lið sögunnar til þess að vinna íslandsmeistaratitilinn fjögur ár í röð, eftir að úrslitakeppnin var kynnt til leiks. En hvernig er þetta tímabil í samanburði við undanfarin ár?

„Þetta er búið að vera allt öðruvísi. Við vorum lengur að smella en heilt yfir er þetta mjög góður árangur hjá liðinu. Við eigum samt eftir að smella algjörlega saman í úrslitakeppninni og að við eigum hálfan aukagír inni ef ekki heilan,“ segir Berglind.

Berglind sjálf hefur leikið afar vel í vetur og vaxið eftir því sem á hefur liðið og segist líða betur líkamlega nú en undanfarin ár.

„Ég hef verið að glíma við ýmis meiðsli í gegnum tíðina en nú er öxlin ekki að plaga mig eins mikið og síðustu ár. Heilt yfir líður mér betur líkamlega og þá gerist meira inn á vellinum.“

Í úrslitakeppninni í fyrra fór það ekki framhjá neinum, hverskonar stuðning stelpurnar í Snæfelli fengu frá aðdáendum liðsins. Berglind segir þær vonast eftir samskonar stuðningi í ár, það skipti gríðarlega miklu máli.

„Ég held að það verði ekkert öðruvísi í ár. Það styðja allir við bakið á okkur.“

Viðtalið við Berglindi má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×