Viðskipti innlent

Arion banki hefur fjóra daga til að upplýsa um raunverulega eigendur

Birgir Olgeirsson skrifar
Goldman Sachs, ásamt þremur alþjóðlegum fjárfestingarsjóðum, hafa keypt samanlagt tæplega 30 prósenta hlut í Arion banka.
Goldman Sachs, ásamt þremur alþjóðlegum fjárfestingarsjóðum, hafa keypt samanlagt tæplega 30 prósenta hlut í Arion banka. Vísir/GVA

Arion banki hefur fjóra daga til að upplýsa um raunverulega eigendur bankans. Þetta kom fram í fréttum Sjónvarpsins í kvöld þar sem rætt var við Jóhann Þór Sturluson, aðstoðarforstjóra Fjármálaeftirlitsins.

Goldman Sachs, ásamt þremur alþjóðlegum fjárfestingarsjóðum, hafa keypt samanlagt tæplega 30 prósenta hlut í Arion banka af Kaupþingi eignarhaldsfélagi fyrir samtals ríflega 48,8 milljarða króna.

Greint var frá þessum kaupum í gær en í kjölfarið hafa margir kallað eftir upplýsingum þess efnis hverjir standa að baki þeim fyrirtækjum. Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra sagðist á Alþingi í dag hafa meðal annars haft samband við forstjóra Fjármálaeftirlitsins vegna þessa. „Ég tel það algerlega óviðunandi fyrir almenning að vita ekki hverjir eru þarna á bak við,“ sagði Benedikt.

Jón Þór Sturluson sagði í samtali við RÚV að skylda hvíli á fjármálafyrirtækjum að birta með reglulegum hætti á vef sínum hverjir eiga eitt prósent eða meira af hlutum í félaginu og þar með talið hverjir raunverulegir eigendur eru á bak við þá eignarhluti, ef um lögaðila er að ræða.

„Þannig að það er skylda sem hvílir á bankanum í þessu tilviki, þeir hafa fjóra daga til að uppfylla þá skyldu,“ sagði Jón Þór við RÚV.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira