Menning

Reykjanesbrautin, Collingwood, Getsemane og Eden

Magnús Guðmundsson skrifar
Einar Falur Ingólfsson og Sigtryggur Bjarni Baldursson í óða önn við að koma upp sýningum sýnum í Ketilhúsi á Akureyri.
Einar Falur Ingólfsson og Sigtryggur Bjarni Baldursson í óða önn við að koma upp sýningum sýnum í Ketilhúsi á Akureyri.
Ketilhús er aðalvettvangur Listasafns Akureyrar um þessar mundir og á morgun verða opnaðar þar tvær einkar áhugaverðar sýningar tveggja ólíkra listamanna, þeirra Einars Fals Ingólfssonar og Sigtryggs Bjarna Baldurssonar.

Sýningin Griðastaðir er úrval ljósmyndaverka úr fjórum tengdum seríum sem Einar Falur hefur unnið að á undanförnum áratug. En Einar Falur segir að þó svo þeir Sigtryggur hafi verið valdir til þess að sýna í húsinu á sama tíma séu á ferðinni tvær einkasýningar. „Við erum á sitthvorri hæðinni, ég er á svölunum sem kallað er, en Sigtryggur niðri í salnum. Tvær einkasýningar en fólk getur gengið á milli í sama rýminu enda er Ketilhúsið einstaklega fallegt hús með mikla hæð sem býður upp á þessa skemmtilegu samtengingu.“

Úr fjórum seríum

Sýning Einars Fals kallast Griðastaðir og eru verkin valin inn af svissneska sýningarstjóranum Christ­oph Kern en Einar Falur segir að upphaflega hafi Kern unnið þetta fyrir sýningu í Basel 2014. „Fremur en að velja eitt af þeim verkefnum sem ég hef verið að vinna að á undanförnum árum valdi Kern að taka saman úrval úr fjórum af mínum langtímaverkefnum. Hann vildi skapa sína heild út frá þessum fjórum seríum sem á sama tíma gæfi einhvers konar heildarmynd af þeirri veröld sem ég hrærist í og mínum áhugasviðum innan ljósmyndunar. Það má segja að þar megi finna snefil af dagbók, sögulegum tengingum og svona marglaga nálgun minni við mitt umhverfi sem byggir kannski einkum á bókmenntum og arfleiðinni. Þetta eru bæði persónuleg verkefni þar sem ég hef verið að skrásetja mitt eigið líf og líka verkefnum eins og þar sem ég hef verið að vinna út frá myndum W.G. Collingwoods. En mér finnst sjálfum gaman að sjá hvaða leið Kern valdi. Það er líka þarna talsvert af myndum úr seríu sem ég kalla Skjól sem fjallar um hvernig við Íslendingar sköpum okkur, og húsdýrum okkar, rými inni í þessari oft á tíðum erfiðu náttúru okkar.“

Einar Falur Ingólfsson. Við Vogaafleggjarann, 2007.
Ómenguð sýn

Einar Falur sem hefur einnig verið með töluvert af portrettmyndum í gegnum tíðina, einkum í menningarsögulegu samhengi, segir að Kern hafi alveg sleppt þeim þætti. „Hans val snýst meira um landið og upplifun mína af landinu. Elsta serían sem hann sækir í er frá 2007 þar sem ég var að vinna með æskuslóðir mínar í Keflavík og Reykjanesbrautina. Þannig að þetta er svona manngert landslag sem Kern tekur svo áfram sem ákveðinn útgangspunkt. Hvernig ég skráset manngert landslag.“

Einar Falur segir að hann hafi ekki haft nein afskipti af vali Kerns. „Mér fannst gaman að sjá hvernig hann nálgaðist þetta, ekki síst með tilliti þess að hann hefur aldrei komið til Íslands. Þannig að hann skoðar mína sýn á landið alveg ómengaða af hans eigin upplifun og það finnst mér mjög áhugavert. Ég hef á undanförnum árum verið að vinna að mjög stórum verkefnum þar sem ég er í senn listamaðurinn og sýningarstjórinn. Það er því sérstaklega gaman fyrir mig að vinna með sýningarstjóra sem fær frítt spil til þess að velja úr mínum myndum út frá sinni sýn. Fær að skapa úr því sína heild og þannig finnst mér þessi sýning Kern vera,“ segir Einar Falur.

Sigtryggur Bjarni Baldursson. Merlandi Skagafjörður V, 2016.
Öll eilíf

Verkin á sýningu Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar, 360 dagar og málverk, eru af ólíkum toga en listamaðurinn segir að sýningin sé eiginlega þrískipt. „Í fyrsta lagi er ég með mjög stórt ljósmyndaverk sem samanstendur af um það bil áttatíu ljósmyndum og það var upphaflega gert fyrir Listvinafélag Hallgrímskirkju, í tilefni af 400 ára afmæli Hallgríms. Þetta er verk sem endaði sem ljósmyndaverk en átti upphaflega að vera vatnslitaverk. Ég ætlaði að túlka eiginhandarrit Hallgríms með vatnslitum en ég bjó í Brighton á þessum tíma. Það fór þannig að í stað þess að mála myndir þá lét ég náttúruna um að gera vatnslitaverk með því að ég skildi vatnslitaörk eftir í fallegum bakgarði heimilis míns. Garðurinn minnti á Getsemane eða Edensgarð, ættaðan úr Passíusálmunum, og svo lét ég náttúrunni það eftir að mála þetta með veðri og vindum á 360 dögum. 

Að því loknu var Hallgrímur eiginlega alveg horfinn en á þeim tíma þá breyttist hann í pöddu og svo í mold og svo tré og loks í epli. Svona eins og við gerum öll og með því fannst mér ég hafa komist nær því að sanna að við erum öll dæmd til þess að vera eilíf. Bæði gegnum hið efnislega og í því sem við gerum um ævina og þannig er Hallgrímur einstaklega eilífur og allt um lykjandi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég sýni þetta 80 ljósmynda verk utan Hallgrímskirkju en mig langaði mikið til þess að sýna þetta í hlutlausara rými og kanna þetta í almennu sýningarrými.“

Tíminn og vatnið

Sigtryggur segir að það sé kannski óvenju flókið konsept á bak við þær myndir sem hann er að sýna að þessu sinni. Önnur myndaröðin kallast Tíminn og vatnið og þar eru á ferðinni gvassmyndir. „Heitið er sótt í það að hér eru á ferðinni litirnir hans Karls Kvarans, sem var okkar þekktasti gvassmálari, en mér áskotnuðust þessir litir. Þeir voru alveg uppþornaðir og fyrir flestum ónýtir. En ég ákvað að gera tilraun með að frelsa þá og koma þeim á pappír en eina leiðin til þess reyndist vera að leggja þá í bleyti og setja þá svo í matvinnsluvél. Elstu litirnir þarna eru úr verksmiðju sem hætti starfsemi árið 1959 þannig að það var kannski ekki að furða að þetta væri orðið þurrt.

En að endingu er ég með verk, sem fólk sem þekkir mín verk er vel kunnugt, en það eru olíumálverk af blikandi hafflötum. En það eru bara málverk og það þarf ekki að útskýra það neitt nánar,“ segir Sigtryggur Bjarni léttur. Sýningar þeirra félaga verða opnaðar í Ketilhúsinu á morgun kl. 15, standa báðar til sunnudagsins 16. apríl og er aðgangur ókeypis.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×