Golf

Ólafía Þórunn upp um meira en hundrað sæti á heimslistanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er að standa sig frábærlega á fyrstu LPGA mótum sínum.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er að standa sig frábærlega á fyrstu LPGA mótum sínum. Vísir/Getty

Frábær frammistaða Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur er heldur betur farin að skila sér í stöðu hennar á heimslistanum í golfi.

Ólafía Þórunn tók sannkallað risastökk á heimslistanum í golfi eftir að hafa endað í 30.til 39. sæti á ISPS Handa LPGA mótinu í Ástralíu um helgina. Þetta kemur fram í frétt á golf.is.

Ólafía Þórunn fór upp um heil 103 sæti á listanum og er núna í 503. sæti. Valdís Þóra Jónsdóttir fór upp um eitt sæti á heimslistanum og er núna í 692. sæti.

Á síðastliðnu ári hefur Ólafía Þórunn farið upp um 354 sæti á heimslistanum en Valdís Þóra hefur farið upp um 74 sæti.

30. sætið um helgina en besti árangur Ólafíu Þórunnar á LPGA mótaröðinni en hún er búin að komast í gegnum niðurskurðinn á tveimur fyrstu mótum sínum á sterkustu atvinnumótaröð heims.

Fyrir árangurinn á mótinu í Ástralíu fékk Ólafía um eina milljón kr. í verðlaunafé. Hún hefur unnið sér um 12.000 Bandaríkjadali eða sem nemur 1,3 milljónum kr. í fyrstu tveimur mótunum á LPGA.

Ólafía Þórunn er með sjötta besta árangurinn af nýliðum ársins 2017 á LPGA og er í 51. sæti á peningalistanum á LPGA. Brittany Lincicome frá Bandaríkjunum er efst á peningalistanum með um 24 milljónir kr. í verðlaunafé eftir tvö fyrstu mótin á LPGA.

Til þess að halda keppnisrétti sínum á LPGA þarf Ólafía að vera í einu af 90 efstu sætunum á peningalistanum í lok keppnistímabilsins. Næsta mót hennar á LPGA verður að öllum líkindum í Phoenix í Bandaríkjunum um miðjan mars.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira