Menning

Söngverk Karólínu og tónskáldaspjall

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Ásgerður ætlar meðal annars að syngja tvö lög á tónleikunum í dag sem aldrei hafa verið flutt á Íslandi áður.
Ásgerður ætlar meðal annars að syngja tvö lög á tónleikunum í dag sem aldrei hafa verið flutt á Íslandi áður. Vísir/GVA
„Við Karólína erum búnar að vinna lengi saman, alveg frá 2001, þá gaf ég út geisladisk með lögum og ljóðum eftir íslenskar konur og Karólína var ein af þeim. Í framhaldi af því frumflutti ég tvö verk eftir hana í Skálholti, hún var þá staðartónskáld þar. Annað verkið heitir Na Carenza og ég ætla að syngja það núna í dag,“ segir Ásgerður Júníusdóttir mezzo-sópran sem sér um sönginn á síðdegistónleikum í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag klukkan 16. Þeir eru tileinkaðir söngverkum Karólínu Eiríksdóttur tónskálds.

Auk Ásgerðar koma þar fram Tinna Þorsteinsdóttir píanóleikari, Guðrún Hrund Harðardóttir víóluleikari og Matthías Nardeau óbóleikari. Þau hafa áður leikið og frumflutt verk eftir Karólínu og hlotið lof fyrir.

Einnig mun Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld, ræða við Karólínu um tilurð verkanna.



Ásgerður hefur nýlokið þátttöku í óperunni Magnús/María eftir Karólínu, í uppfærslu sænska leikstjórans Suzanne Osten sem Ásgerður segir að sé „femínisti númer eitt“. „Það var hún sem samdi lagið við Áfram stelpur“, upplýsir hún og bætir við að Magnus/María sé femínísk sýning sem hafi verið sett upp víða á Norðurlöndunum síðustu þrjú árin og alls staðar fengið feiki góða dóma. Meðal annars hafi hún verið sýnd í Þjóðleikhúsinu á listahátíð árið 2015.

Þess má geta að um frammistöðu Ásgerðar í lokasýningunni í Stokkhólmi sagði gagnrýnandi Dagens Nyheter að þrátt fyrir að í slíku verki væri það alltaf hópurinn sem væri stjarnan þá yrði sérstaklega að geta hinnar hlýju og fljótandi mezzo-raddar Ásgerðar.

Á síðdegistónleikunum í dag verður Íslandsfrumflutningur á tveimur nýjum lögum eftir Karólínu, þau eru samin við ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur og Sjón, eiginmann Ásgerðar.

„Við Tinna Þorsteins ákváðum að nota tækifærið til að halda tónleika og kynna Karólínu þegar Magnús/María var sett upp í þjóðaróperunni í Helsinki og Borgarleikhúsinu í Stokkhólmi. Þessi tvö lög voru meðal þess sem þar var á efnisskránni en þau hafa aldrei heyrst hér á landi áður,“ segir Ásgerður.

Karólína og Ásgerður vinna nú að gerð geisladisks sem er væntanlegur með haustinu.

Aðgangur að tónleikunum í dag er ókeypis og allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

 

Greinin birtist fyrst 25. febrúar 2017






Fleiri fréttir

Sjá meira


×