Körfubolti

Körfuboltakvöld: Skítabragð sem er stórhættulegt

Kristinn Páll Teitsson skrifar

„Þetta er skítabragð hjá þessum brosmilda manni sem lífgar upp á hvert herbergi sem hann stígur inn í. Hann tekur undir fótinn á honum og ég er virkilega ánægður með dómarann að sjá þetta,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þáttarstjórnandi Dominos Körfuboltakvölds, um brot sem dæmt var á Sherrod Wright í leik Keflavíkur og Hauka á fimmtudaginn.

Sherrod ýtti við fótum Reggie Dupree, bakvarðar Keflvíkinga, er hann fór upp í þriggja stiga skot og fékk réttilega dæmda á sig óíþróttamannslega villu.

Er þetta r ekki í fyrsta skiptið sem hann slær í fætur manna í skoti í vetur og voru sérfræðingarnir ósáttir að sjá þetta.
 
„Þetta er mjög ljótt og hann hefur gert þetta áður, hann er að fara í lappirnar á mönnum. Fyrir fólkið í stofunni sem hefur ekki spilað leikinn heima þá er þögult samkomulag milli leikmanna að snerta ekki fæturna í loftinu því þá seturu ökklana á andstæðingnum í hættu. Þetta er einfaldlega bara ljótt,“ sagði Kjartan og Jón Halldór Eðvaldsson tók undir það.

„Þetta minnir á gamalt bragð úr handboltanum í gamla daga sem kallað var júgóslavneska bragðið. Þetta er andstyggilegt hjá honum og á ekkert heima inn á vellinum,“ sagði Jón og Fannar tók undir og hrósaði dómaranum fyrir að sjá þetta stórhættulega brot en umræðuna má sjá hér fyrir ofan.
 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira