Skoðun

Áskorun til Brynjars Níelssonar

Gunnar Kristinn Þórðarson skrifar
Í aðdraganda alþingiskosninganna í fyrra stóð Félag um foreldrajafnrétti fyrir fundi með frambjóðendum, þar sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna komu saman til að ræða málefni umgengnisforeldra, -einkum þau er varðar umgengnistálmanir. Kom fram á fundinum að Framsóknarflokkurinn hefði samþykkt ályktun þess efnis að skilgreina ætti ástæðulausar umgengnistálmanir sem ofbeldi í lögum. Fulltrúi Bjartrar framtíðar tók undir sjónarmið Framsóknarflokksins og sagði Brynjar Níelsson, alþingismaður og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á fundinum, að hann hefði þá þegar samið frumvarp þess efnis.

Ástæðulausar umgengnistálmanir eru gróft, kynbundið ofbeldi sem á sér stað innan veggja heimilis. Engin raunveruleg ráð eru til í lögum til að stemma stigu við því ofbeldi, og til að bæta gráu ofan á svart, hafa sýslumenn gerst sekir um að standa vörð um slíkt ofbeldi, -bæði með aðgerðarleysi sínu en einnig með ómálefnalegri málsmeðferð umgengnismála hjá sýslumannsembættunum. Það gera þeir án þess að byggja ákvarðanir og málsmeðferð á sjónarmiðum barnaverndaryfirvalda.

Opinber gögn sýna að um 500 tálmunarmál veltast um hjá sýslumönnum á ári hverju, en óhætt er að áætla að fjöldi þeirra sé mun meiri.

Samtök umgengnisforeldra telja brýnt að ástæðulausar umgengnistálmanir verði skilgreindar sem ofbeldi í lögum, þannig að tálmunarmál verði samstundis að barnaverndarmáli þegar þau koma á borð sýslumanns. Samtökin telja óhæft, og ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar um málefnaleg valdmörk, að sýslumaður sé að taka ákvarðanir út frá sjónarmiðum barnaverndar, heldur þurfa slíkar ákvarðanir að vera á hendi barnaverndaryfirvalda. Mikilvægt er að allar ákvarðanir um málefni skilnaðarbarna séu grundvallaðar á vandaðri málsmeðferð og málefnalegum sjónarmiðum. Sú er ekki raunin í dag!

Samtök umgengnisforeldra skora á Brynjar Níelsson að leggja fram frumvarp sitt um umgengnistálmanir fram á Alþingi, svo það fái þinglega meðferð. Mikilvægi þess að slíkt frumvarp verði samþykkt á Alþingi er augljóst. Hins vegar er einnig mikilvægt að kjósendur fái að vita, hvaða stjórnmálamenn og hvaða stjórnmálaflokkar eru fylgjandi eða á móti slíku frumvarpi, og hvaða sjónarmið liggja þar að baki.

Á framboðsfundinum fékk Brynjar standandi lófaklapp feðra vegna afstöðu sinnar til málaflokksins. Er hann nú hvattur til að standa við stóru orðin og leggja fram frumvarp gegn ástæðulausum umgengnistálmunum.

 

Gunnar Kristinn Þórðarson

Höfundur er stjórnsýslufræðingur og framkvæmdastjóri Samtaka umgengnisforeldra

Gunnar Kristinn Þórðarson



Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×