Innlent

Ísland mun að óbreyttu ekki standa við skuldbindingar sínar varðandi losun gróðurhúsalofttegunda

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá byggingu kísilvers í Helguvík en aukning losunar gróðurhúsalofttegunda er mest vegna stóriðju.
Frá byggingu kísilvers í Helguvík en aukning losunar gróðurhúsalofttegunda er mest vegna stóriðju. Vísir/GVA
Að óbreyttu stefnir í að Ísland muni ekki standa við skuldbindingar sínar varðandi það að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030. Kveðið er á um skuldbindingarnar í Parísarsamkomulaginu en Alþingi fullgilti samkomulagið síðastliðið haust.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um Ísland og loftslagsmál en stofnunin vann skýrsluna að beiðni umhverfis-og auðlindaráðuneytisins. Dr. Brynhildur Davíðsdóttir kynnti skýrsluna í Háskóla Íslands í dag og afhenti Björt Ólafsdóttur, umhverfis-og auðlindaráðherra, fyrsta eintakið.

Í skýrslunni kemur fram að spáð er aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda um 53 til 99 prósent til ársins 2030 sé miðað við árið 1990. Sé kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu tekin með er aukningin heldur minni eða 33 til 79 prósent en aukning losunar er mest í stóriðju.

Í ágripi skýrslunnar segir að „aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá 2010 miðaði að því að útstreymi án stóriðju og án bindingar með landgræðslu og skógrækt yrði 9% minna árið 2020 en árið 1990 og 32% minna árið 2020 án stóriðju en með bindingu. Nokkuð vantar á að þessi markmið náist. Útstreymi ársins 2014 án stóriðju var 6% meira en útstreymi ársins 1990, en 10% minna ef binding var tekin með.“

Eigi þau markmið og þær skuldbindingar sem Ísland hefur einsett sér að ná í samræmi við Parísarsamkomulagið að standast þurfa að koma til mótvægisaðgerðir til þess að draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda.

„Greindar voru 30 mótvægisaðgerðir með tilliti til kostnaðar og ábata. Sumir kostir eru dýrir, aðrir kosta tiltölulega lítið og sumir skila jafnvel fjárhagslegum nettóábata. Skýrslan greinir tæknilega möguleika á að draga úr losun og auka kolefnisbindingu, en tekur fram margt hafi áhrif á hvort samdráttur í losun verði í raun, s.s. stjórnvaldsákvarðanir, olíuverð og fleiri þættir. Að óbreyttu stefni í að Ísland standi ekki við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamningnum til 2030, en slíkt sé hins vega mögulegt ef gripið verði til frekari mótvægisaðgerða,“ segir á vef umhverfis-og auðlindaráðuneytisins.

Skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands má nálgast í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Mannkynið að brenna út á tíma í loftlagsmálum

Hvert hitametið af öðru hefur verið slegið á jörðinni á þessu ári sem verður það heitasta frá því mælingar hófust. Jörðin er að senda mannkyninu alvarleg viðvörunarmerki.

Parísarsamkomulagið tekur gildi í dag

Dagurinn í dag á að marka upphafspunkt raunsærra aðgerða í að ná því marki að tryggja að hnattræn hlýnun verði undir tveimur gráðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×