Golf

Ólafía Þórunn bjargaði sér á fuglasöng í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Vísir/Getty

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur nú náð niðurskurðinum á tveimur fyrstu mótum sínum á bandarísku mótaröðinni, LPGA, en GR-ingurinn öflugi átti síðasta fugla-orðið á hringum sínum í nótt.

Ólafía Þórunn lék annan hringinn á ISPS Handa mótinu í Ástralíu á 74 höggum eða einu höggi yfir pari. Ólafía er þar með á pari eftir tvo fyrstu keppnisdagana og náði með því niðurskurðinum en það mátti engu muna.

Ólafía Þórunn er í 65. til 75. sæti eftir tvo fyrstu dagana og níu höggum á eftir efstu konu sem er Sarah Jane Smith frá Ástralíu.  

Ólafía Þórunn sýndi mikinn andlegan styrk með því að koma til baka í lokin eftir að hafa fengið skolla á þremur holum í röð.

Ólafía Þórunn fékk skolla á 13., 14. og 15. holu og var þá komin tvö högg yfir par samanlagt. Það var ljóst að slíkt skor hefði ekki komið henni í gegnum niðurskurðinn.

Ólafía náði hinsvegar fugli á síðustu tveimur holunum og það átti eftir að reynast heldur betur dýrmætt.

Ólafía Þórunn var með fjóra fugla og fjóra skolla á öðrum hringnum.  Hún var komin tvö högg undir par eftir fugl á fjórðu holu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira