Erlent

Trump ver Pútín: „Heldur þú að landið okkar sé svona saklaust?“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump, Bandaríkjaforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump, Bandaríkjaforseti. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, varði forseta Rússlands, Vladimír Pútín, gegn ásökunum um morð sem framin hafi verið af rússneskum yfirvöldum, í nýju viðtali.

„Það er til mikið af morðingjum. Við höfum mikið af morðingjum. Hvað heldur þú? Að landið okkar sé svona saklaust?“

Ummælin lét Trump hafa eftir sér í viðtali við sjónvarpsmanninn Bill O'Reilly hjá Fox News sjónvarpsfréttastöðinni.

Hann sagðist virða rússneska forsetann og sagði að hann myndi kjósa að „eiga í góðum samskiptum við hann.“ Trump vill að Bandaríkin hjálpi Rússum í baráttunni gegn „íslömskum hryðjuverkum.“

„Ég virði hann, en ég virði mikið af fólki. Það þýðir ekki að mér muni líka vel við hann.“

„Ég held því fram að það sé betra að láta okkur lynda við Rússland, heldur en ekki. Ef Rússar hjálpa okkur í baráttunni við ISIS, sem er mikilvæg barátta og í baráttunni við íslömsk hryðjuverk, þá er það gott.“

„Mun mér líka vel við hann? Ég hef ekki hugmynd.“

Pútín og Trump ræddu saman símleiðis, síðastliðinn laugardag og ákváðu þeir þá að vera í reglulegu sambandi, en ekki hefur verið ákveðið hvenær þjóðarleiðtogarnir tveir hittast í fyrsta sinn.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×