Körfubolti

Friðrik Ingi: "Njarðvík á mig ekki“

Tómas Þór Þórðarson. skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson
Friðrik Ingi Rúnarsson vísir

„Ég hef sótbölvað Keflvíkingum og þeir vita það,“ segir nýráðinn þjálfari Keflavíkur í Dominos-deild karla, Njarðvíkingurinn Friðrik Ingi Rúnarsson.

Friðrik Ingi hefur verið tæpt ár frá Dominos-deildinni eftir að hann var látinn fara frá uppeldisfélaginu sínu Njarðvík síðasta vor. Hann tekur við starfinu hjá Keflavík af Hirti Harðarsyni sem verður honum til aðstoðar. Hann sagðist aldrei vera hættur í þjálfun en bjóst ekki við að snúa aftur fyrr en eftir tímabilið.

„Ég vonaðist eftir því að fá tækifæri með sumrinu þannig að þetta var ekki þannig að ég lá með vúdúnálar í vetur. Það var ekki æskilegasta staðan að taka við núna en mér fannst þetta vera spennandi. Keflavíkurliðið er búið að vera ákveðið jójó en það er ákveðinn andi þarna eins og við vitum þannig ég var bara spenntur,“ segir Friðrik Ingi við íþróttadeild.

Leikmenn úr Njarðvík hafa flykkst yfir til Keflavíkur undanfarin misseri og nú er einn sögufrægasti þjálfari þeirra grænu mættur í Sláturhúsið. Er rígurinn smám saman að minnka?

„Rígurinn verður held ég alltaf til staðar. Ég hef margoft í gegnum tíðina sótbölvað Keflvíkingingum og þeir vita það. Ég held að Keflvíkingarnir séu einmitt að fá mig því þeir vita að ég er keppnismaður og er andans maður. Ég hef ástríðu fyrir körfubolta. Ég hef gert körfubolta að mínu ævistarfi eða eitthvað sem honum tengist. Njarðvík á mig ekki og menn hafa verið að fara á milli félaga þannig þetta er bara galopin bók,“ segir hann.

Líklegt er að Friðrik Ingi mæti ekki Njarðvík sem þjálfari Keflavík í Ljónagryfjunni fyrr en á næsta tímabili en hvernig býst hann við að sú stund verði? „Ef ég rata réttu megin þá held ég að ég verði bara andskoti góður,“ segir Friðrik Ingi Rúnarsson.

Kvöldfrétt Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan en hér að neðan má sjá allt viðtalið við Friðrik Inga Rúnarsson.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.