Erlent

Háskólanemi talinn bera ábyrgð á skotárás í Kanada

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hinn grunaði heitir Alexandre Bissonnette og er 27 ára gamall háskólanemi.
Hinn grunaði heitir Alexandre Bissonnette og er 27 ára gamall háskólanemi. Vísir/Facebook/AFP
Fransk-kanadískur háskólanemi er talinn bera ábyrgð á skotárás á mosku í Quebec í gærkvöld þar sem sex létu lífið. Þá eru fimm enn í lífshættu og tólf til viðbótar særðir. Meira en fimmtíu manns voru í moskunni þegar árásin var gerð og þeir látnu voru á aldrinum 35 til 65 ára. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði árásina vera hryðjuverk.

Lögregla handtók tvo menn í kjölfar árásarinnar. Annar var handtekinn á staðnum og annar var handtekinn í kjölfar þess að hann hringdi í neyðarlínuna.

Hinn grunaði heitir Alexandre Bissonnette og er 27 ára gamall háskólanemi. Maður af marokkóskum ættum var einnig handtekinn en er yfirheyrður sem vitni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Tilefnið ekki vitað

Ekki er enn vitað hvert tilefni árásarinnar var og er málið enn rannsakað.

„Þeir telja að hann hafi verið einn að verki,“ segir heimildarmaður Reuters.

Justin Trudeau sagðist í yfirlýsingu vera sleginn yfir atburðinum en einnig sár og reiður. Hann sagði alla Kanadamenn fordæma árásir á bænahús trúarhópa þar sem fólk eigi sér sitt trúarlega skjól. Síðastliðið sumar var afskorið svínshöfuð skilið eftir fyrir framan dyrnar að sömu mosku.

Í Quebec búa rúmlega 500 þúsund manns og er glæpatíðni þar frekar lág. Til að mynda voru tvö morð framin þar árið 2015. Þá eru skotárásir sjaldgæfar í Kanada, en þar eru lög um skotvopn umtalsvert strangari en í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×