Lífið

Verð helst að fá mér rollur

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Hverju aldursskeiði fylgir eitthvað nýtt og spennandi,“ segir Björk bjartsýn.
"Hverju aldursskeiði fylgir eitthvað nýtt og spennandi,“ segir Björk bjartsýn. Vísir/Stefán
Jú, ég stend víst á tímamótum – orðin hálfrar aldar gömul. Það er bara fínt,“ segir Björk Jakobsdóttir leikkona og rökstyður sitt mál: 



„Hverju aldursskeiði fylgir eitthvað nýtt og spennandi. Nú er ég hætt að skutla og sækja í tómstundir því drengirnir tveir eru að verða fullorðnir, Ásgrímur, 23 ára, er kominn til London í leiklistarnám og Óli Gunnar, 17 ára, í Versló og ég er farin að sinna folöldum og hvolpum í staðinn.“ 

 Björk á sjö hesta og nýlega gaf eiginmaðurinn, Gunni Helga, henni Border Collie hund í afmælisgjöf.

„Karlinn keyrði með mig austur í Skaftártungu og náði þar í afkomanda helstu smalahunda landsins svo nú verð ég helst að fá mér rollur svo hundurinn hafi eitthvað að gera. Ég ætlaði alltaf að verða annaðhvort bóndi eða leikkona, kannski ég taki bara U-beygju núna og verði bóndi á seinni hluta æviskeiðsins.“

Það kemur í ljós að ég er að tala við landeiganda í Ásahreppi því þar ræður Björk yfir 30 hektara skika, ásamt eiginmanninum, og segir hollt að komast í tengsl við sveitamenninguna þar eystra.

„Ég hef ekki gefið kost á mér í skemmtinefndir en ég hef keppt í Útsvari fyrir Ásahrepp og talað á blótum, það vantar alltaf að fylla kvennakvótann og þá er brugðið á það ráð að hringja í Björk. Þó hún kunni ekkert í spurningaleikjum og þoli ekki að halda ræður er hún alltaf svo vitlaus að segja já,“ lýsir hún hlæjandi.

Um afmælishaldið er hún ófróð en hefur grun um að Gunni sé að skipuleggja eitthvað. „Ég hef gaman af að halda veislur fyrir aðra en er ömurleg þegar kemur að eigin afmæli. Enda frekar ein úti í sveit og græt liðin ár.“

Björk er Hafnfirðingur og þar er stórfjölskyldukjarninn að hennar sögn. „Mamma er ein af sex systkinum sem halda gríðarlega vel saman og afkomendur þeirra. Ég er rík að eiga stóra fjölskyldu en það þýðir líka að 50 ára afmælisboð er komið í fimmtíu manna veislu alveg um leið – bara með því allra nánasta.“

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. desember 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×