Menning

Björk Guðmundsdóttir um sorgarferlið sem fylgdi skilnaðinum

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Björk Guðmundsdóttir er klædd í ljósbleikan kímonókjól og bleika skó. Hún er með gullkamb í hárinu og skartgripi sem minna á hafið, hálsmen með kolkrabba og hring sem minnir á kóral. Hún situr og vefur utan um sig kjólnum. Það er létt yfir henni.

„Þetta er svolítið eins og yfirheyrsluherbergi,“ segir hún kímin um fundarsalinn í Hörpu sem er lýstur upp með gríðarlega sterkum ljóskösturum úr lofti. Hún lækkar í ljósunum þar til birtan verður þægileg og kallast á við skammdegið fyrir utan. Klukkan er rétt rúmlega þrjú og sólin lækkar hratt á himni.

Björk er þakklát aðstandendum Hörpu tónlistarhúss sem kölluðu eftir sýningu hennar; Björk Digital, eða Stafrænn heimur Bjarkar, til Íslands í samstarfi við Iceland Airwaves. Þar áður var sýningin sett upp í miklu stærri umgjörð í Sydney, Tókýó og nú síðast í Somerset House í London.

„Ég er afar þakklát því að hugmyndin kom héðan. Það er alltaf þetta stolt í mér, mig langar alltaf til að koma með sýningarnar mínar og tónleikana hingað. Og þá þegar þeir eru orðnir bestir. Í raun og veru er sýningin betri en hún var í London, við erum til að mynda með nýtt myndband, Family, sem mér finnst besta myndbandið og svo er lagið Notget í nýrri uppfærslu á sýningunni,“ segir Björk.

Sorgin er ferðalag

Björk útskýrir sýninguna. Gestir kynnast tónheimi hennar með því að njóta verka sem Björk hefur gert í samvinnu við nokkra af bestu leikstjórum og forriturum á sviði sýndarveruleika og það er platan Vulnicura sem er grunnurinn að sýningunni. Persónulegasta verk Bjarkar. Í því afhjúpar hún sig og fjallar um eigin sársauka og sambandsslit sín við Matthew Barney. Hún hefur verið treg til viðtala um forsendur verksins enda feli verkið í sér uppgjör hennar. Lagið Notget var samið ellefu mánuðum eftir sambandsslitin við Matthew. Lagið lýsir miklum sársauka. Björk líkir missinum og sorginni sem fylgdi sambandsslitunum sem ferðalagi, skiptu upp í kafla.

„Það er búið að vera mjög áhugavert fyrir mig að fara í gegnum þetta ferðalag. Ég hef miklu meira álit á líffræði líkamans, heilanum og taugakerfinu eftir þessa reynslu mína. Sorgarferlið sem fylgdi skilnaðinum er eins og bók sem maður fer í gegnum, kafla eftir kafla,“ segir Björk og segist hafa haldið að hún myndi ekki ganga í gegnum þetta dæmigerða ferli sem er lýst í stigum.

„Sorg er einstaklingsbundin tilfinning og ekkert sorgarferli eins og ekkert áfall eins. Þannig hélt ég að ég væri öðruvísi en aðrir og myndi ekki ganga í gegnum þetta dæmigerða ferli. Gæti harkað af mér. En samt komst ég að því að framvinda sorgar er svipuð hjá flestum. Líka mér. Ég áttaði mig. Horfði til baka og sá að ég var búin að klára ákveðinn kafla og komin á þann næsta. Þetta er náttúrulegt ferli og ákveðin sammannleg reynsla sem ég gekk í gegnum,“ segir Björk og segist finna fyrir ákveðinni tilfinningu eftir ferðalagið sem henni þyki falleg.

Finnur fyrir samkennd

„Ég finn fyrir samkennd. Ég er kannski á gangi á Laugaveginum eða í stórborg, í mannmergð. Og þá finn ég fyrir því að flestir hafa tekist á við missi, sorg og áföll. Hvort sem það eru stór eða lítil áföll. Ég finn fyrir meiri tengingu við mig og við annað fólk og mér þykir eiginlega bara vænt um þá tilfinningu.

Ég set þetta líka í samhengi. Veit að ég er heppin að hafa ekki liðið erfið áföll og erfiðar aðstæður áður. Mér hefur gengið vel, kem frá góðu og friðsælu samfélagi. Og þegar ég lenti í svona sársauka eins og þessum þá var ég samt í aðstöðu til að sinna því. Gat tjáð mig um það, sem kannski ekki allir geta. Því það að vera söngkona og syngja um ást, það er bara eðlilegt.“

Það er líka ákveðin uppgötvun fyrir Björk að fylgjast með yngri kynslóðum horfa fram á veginn. „Við erum að lifa svo breytta tíma. Unga fólkið, það lifir eins og það verði 120 ára og sér líf sitt í mörgum köflum og skeiðum. Ég er af þeirri kynslóð að ég trúði því að það væri bara einn maki, eitt starf. Yngri kynslóðir sjá þetta raunsætt, ástina og ferilinn, alltaf að breytast. Ég held að mín kynslóð sé sú allra síðasta til að trúa þessum takmörkunum.“

Don’t remove my pain

It is my chance to heal

Þetta segir í laglínum Notget. Er hún sterkari eftir sambandsslitin og að hafa tekist á við sorgina í gegnum listina? Varð það raunin að sársaukinn gaf henni tækifæri á að verða aftur heil?

„Ég hugsa það, en það er samt afstætt. Ég er búin að læra margt og ég held að mér hafi tekist að koma út úr þessu án farangurs. Þyngri byrða. Ég held að það sé það sem ég var að stefna að. Ég er sú sama og það er ákveðið afrek,“ segir Björk.



Vill búa til brú

Á sýningunni er gestum augljóst að Björk vill gæða tæknina lífi og hlýju. Sýningin er einstaklingsupplifun og nándin við laglínur, tónlist og hugarheim Bjarkar er mikil.

Þú hefur sagt það hlutverk listamannsins að glæða tæknina sál?

„Já, því hún hefur sál. Af því hún er hluti af listsköpun og handverki, tjáningu okkar. Orðið techno kemur úr grísku og þýðir í raun og veru handverk. Við bjuggum til spjót, skárum út, saumuðum, smíðuðum, máluðum. Og áður en við vitum erum við komin með iPhone í hendurnar. Ég veit ekki hvers vegna við reynum að aðgreina tæknina frá því sem við búum til. Það er eins og að reyna að skera handlegginn af sér. Það er ekki raunsætt að segja að við séum góð og við erum hérna megin en tæknin er vond og köld og er hinum megin. Ég vil búa til brú á milli. Tæknin er hluti af okkur,“ segir Björk og segist hafa þörf fyrir að nota tækni í sköpun sinni. „Já, ég tala bara fyrir mig. En til að vera heiðarleg þá finnst mér ég þurfa að nota tæknina sem við erum að þróa í dag. Við horfum á myndbönd, Netflix, notum síma og erum í sambandi við ástvini okkar. Ég vil ekki sleppa þessum tækniheimi, sem er bara hversdagurinn. Ég vil skapa með honum. Við erum öll tilfinningaverur og þurfum á því að halda að finna því farveg í þessu daglegu lífi. Með þeim tækjum sem við notum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að skrá alla vega hluta af okkar hjartans málum með þessum verkfærum.“

Ábyrgari heimspeki pönksins

Hún segir heimspeki pönksins enn þá eiga við. 

„Þetta var sá jarðvegur sem ég kom úr og snerist mjög mikið um það að reiða sig ekki á aðra. Þessi heimspeki var skýr á Smekkleysutímanum og í Sykurmolunum. Að gera sjálf. Að taka ábyrgð. Bíða ekki eftir einhverri þróun heldur hafa áhrif sjálf. Eftir því sem ég eldist þá eflist ábyrgðartilfinningin sem í raun fylgir pönkinu. Ég skil enn betur að maður er sjálfur ábyrgur fyrir því að færa fram í þjóðfélagið það sem maður óskar eftir að verði hluti af því. Ef maður gerir það ekki sjálfur, þá gerir það enginn. Í eldgamla daga þá þýddi þetta það að reiða sig ekki á Skífuna eða Steinar. Ef maður var ekki ánægður með músíkina sem var gefin út, þá gerði maður hana bara sjálfur. Lærdómurinn er sá að það er ekki hægt að benda á neinn og kenna neinum um. Það er bara hægt að skapa nýtt, og það er viðhorf mitt til þeirra verkefna sem ég er að sinna í dag,“ segir Björk og á við framþróun í sýndarveruleika, forritun og tónlist.

„Ég vil frekar reyna að vera þátttakandi. Prófa mig áfram og spyrja spurninga. Hvað ef? Hvað ef við förum þessa leið?“

Mikil nálægð

Á sýningu Bjarkar setja gestir á sig sýndarveruleikagleraugu og heyrnartól og fylgjast með Björk í 360 gráðu sýn ganga á svartri ströndinni við Gróttu í myndbandi við lagið Stone­milker. Nálægðin er mikil í myndbandinu. Björk dansar í kringum áhorfandann á ströndinni. Lagið fjallar um einhvern sem reynir að fá tilfinningar út úr annarri manneskju. Og lýsir þörf fyrir skýrleika og svör.

What is it that I have

That makes me feel your pain?

Like milking a stone

to get you to say it

Getur þú sagt nánar frá texta lagsins? Og er það rétt að þú hafir í raun samið þetta lag gangandi á strönd?

„Ég samdi lagið gangandi á Gróttu þar sem lagið var kvikmyndað. Það er falleg heilun að eftir að hafa ferðast til Ástralíu, Asíu, Ameríku og Evrópu sé lagið komið aftur heim. Það er hægt að sjá ströndina út um gluggann á Hörpunni! Við fengum myndavél lánaða, eina fyrstu 360 gráðu tökuvélina, og þegar við vorum hér að filma Black Lake var þetta svona skyndiákvörðun sem við Andy tókum kvöldinu áður. Mér finnst upptakan nokkuð fersk þess vegna.“





Í því lagi, Black Lake, sem var samið tveimur mánuðum eftir sambandsslitin, er lýst mikilli reiði.

Did I love you too much

Devotion bent me broken

So I rebelled

destroyed the icon

Þú hefur sagt að þér fyndist erfiðast af öllu að tala um þetta lag. Hvers vegna?

„Ég lagði mikla vinnu í textana og mér finnst vera ástæða fyrir því af hverju texta- eða ljóðformið gerir okkur kleift að tjá hluti sem ekki er hægt í daglegu lífi eða í samræðum. Þessi fáu skipti sem maður nær að raða orðunum á réttan hátt nær maður spennu og orku sem flæðir milli línanna og oft liggur það sem hefur mesta meiningu í dvala þar í þögninni. Svo það að útskýra of mikið gæti dregið lífið úr þeirri tjáningu.“

Skapandi ævisaga og farangur

Á Vulnicura er einnig að finna lög sem eru samin áður en sambandsslitin urðu. Eitt fjallar um móður hennar, Hildi Rúnu Hauksdóttur. Björk samdi það eftir erfið veikindi móður sinnar og segir laglínurnar ákveðið uppgjör og sjálfsskoðun.

When I’m broken, I am whole

And when I’m whole, I’m broken

Our mother’s philosophy

It feels like quicksand

And if she sinks

I’m going down with her

„Quicksand er eitt elsta lagið á plötunni og er um samband mitt við móður mína og hennar við móður sína. Sem er frekar flókið. Við erum öll með hlaðna sögu. Farangur sem við fáum við fæðingu. Eitthvað sem ég þarf að leysa úr til að létta farangur dóttur minnar. Þetta er keðja, frá móður til móður,“ segir Björk.

„Ég er að horfast í augu við gamla neikvæðni og óunnin mál í fjölskyldunni. Það er svo auðvelt fyrir yngri kynslóðir að benda og dæma, það er svo mannlegt. Og kannski er það sniðugt af náttúrunni, því þannig erum við alltaf að horfast í augu við okkur sjálf og ef til vill að létta á farangrinum fyrir börnin okkar. En ég er líka að gera svolítið grín að sjálfri mér. Því hver er eiginlega heill? Og hver er eiginlega brotinn? Þegar ég horfi til baka þá hef ég kannski talið mig eiga gott tímabil, en kannski var ég hvað mest brotin þá. Og öfugt. Við erum alltaf að sjá ævi okkar aftur og aftur upp á nýtt, frá nýjum sjónarhornum.“

Áhætta og velgengni

Sýningin hefur fengið góð viðbrögð. Björk segir mikla áhættu hafa tengst sýningunni, enda sé hún ákveðin tilraun. 

„Það er enginn að gera þessa sýningu í heiminum á þessum skala eins og við erum að gera. Hún er sú fyrsta þessarar tegundar. Sýningin var mjög stór í Sydney, ein og hálf milljón manns fór í gegnum sýninguna. Þetta var í raun eins og listahátíð hér heima og umgjörðin öll stærri. Ég ákvað bara að láta á þetta reyna og sjá hvað gerðist. Það gekk vel og þá prófaði ég að fara með sýninguna til Tókýó, mekka tækninnar. Þar var sýningin haldin á tæknisafni sem er nú orðið tuttugu ára gamalt. Það var alveg ótrúlegt að sjá tuttugu ára sögu róbóta á safni því tilfinningin er sú að þetta sé eitthvað sem er nýhafið,“ segir Björk.

Sýningin í London var haldin í Somerset House. „Þar var undirtónninn virðulegri, alvarlegri, annað samhengi. En við fengum mjög góða dóma og það var uppselt á sýninguna allan tímann.“

Líkamleg nánd sýndarveruleika

Hverjir eru möguleikar sýndarveruleika og tónlistar? 



„Ég hef lengi verið að taka þátt í því að búa til myndbönd. Síðan ég veit ekki hvenær, ég held 1982. Þannig að ég hef mikla reynslu í þessum iðnaði sem hefur gengið í gegnum margs konar skeið. Ég var alltaf að reyna að gera eitthvað nýtt og óska þess að ég gæti gert eitthvað stórbrotið. Brotið mig úr rammanum. Mér hefur alltaf fundist sjónvarpið frábært en samt eins konar millilending. Þegar sýndarveruleikinn varð mögulegur í tónlist þá varð ég strax mjög hrifin og forvitin. Þarna er hægt að fara í afmarkaðan heim þar sem maður getur sleppt sér. Það heillar mig og við erum rétt að byrja, núna erum við að þróa hljóðið, láta það fara með hreyfingunni á sama tíma og horft er. Það þarf að semja lagið þannig, taka tillit til skynhrifanna.

Það eru kostir og gallar en sterkustu kostirnir eru þessi áhrif. Þessi líkamlegu og nánu áhrif. Sýndarveruleikinn fer beint í heilann. Sá sem horfir og hlustar er í miðjunni, þess vegna er þetta svo spennandi,“ segir Björk og nefnir að vísindamenn séu líka heillaðir ekki síður en listheimurinn.

Alltaf skilað auðu í pólitík

Björk er ekki virk í stjórnmálum að eigin sögn og hefur alltaf skilað auðu í kosningum. 

„Ég hef alltaf skilað auðu í pólitík og aldrei stutt neinn flokk. Meira að segja þegar vinir mínir fóru fram í Besta flokknum þá studdi ég þá ekki á neinn hátt. Nema bara sem vinur, eins og þeir hafa stutt mig sem vinir. En alls ekki opinberlega eða með fjárstuðningi.

Mín pólitík er hins vegar umhverfismálin. Ég hef verið í um sextán ár í sjálfboðavinnu í því að minna Íslendinga á að þeir eigi þennan fallega þjóðgarð og það gerist ekki sjálfkrafa að hann verði verndaður. Og það þarf að taka afstöðu,“ segir Björk og segist stundum hafa áhyggjur af því að með baráttu sinni hafi hún þau áhrif að fólk geri minna.

„Ég fæ reglulega þetta áhyggjukast að fólk hugsi: Gott að Björk er að þessu. Þá þarf ég ekki að gera neitt. Því það er svo gríðarlega mikilvægt að allir taki afstöðu og ábyrgð í umhverfismálum. Sérstaklega vegna válegrar þróunar í loftslagsmálum. Við héldum eitt sinn að við hefðum fimmtíu ár til að breyta orkugjöfum til þess að snúa við þróuninni, en þau eru nú átta. Ef við ætlum virkilega að gæta þess að barnabörnin okkar geti átt heima á jörðinni þá verðum við að blanda okkur í baráttuna með skýrum hætti.“

Björk ásamt Andra Snæ Magnasyni á blaðamannafundi á vegum Landverndar í nóvember í fyrra.Vísir/GVA
Ábyrgðarleysi stjórnvalda

Hún gagnrýnir ábyrgðarleysi íslenskra stjórnmálamanna, henni finnst erfitt að fylgjast með þróun mála í Helguvík og óttast mjög um framvinduna í Hvalfirði.

„Mér finnst virkilega erfitt að fylgjast með þróun mála í Helguvík. Iðnaði sem ég barðist ötullega gegn. Það er minna en fjórðungur ofnanna kominn í gang og mengunarbræla út um allt. Þá er Hvalfjörður í mikilli hætti og þéttbýli í grennd. Þar er stórslys í uppsiglingu sem verður að stöðva. Þetta er svo mikið ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda. Ég fylgist núna með stjórnmálunum og stjórnarmyndunarviðræðum og vona að sterkur umhverfisráðherra taki við. Einhver sem skellir ekki í margar Helguvíkur heldur tekur ábyrgð.“

Gott líf í Vesturbænum

Björk býr á Íslandi langstærstan hluta ársins.

„Yfirleitt þegar ég er hérna á Íslandi þá nýt ég þess að vera bara heima í Vesturbænum. Fara í Vesturbæjarlaugina og Melabúðina. Mér finnst það gott líf. Ég fer ekki mikið í viðtöl, þá heldur fólk að ég sé á flakki. Mér finnst það best, að halda mig svolítið til hlés.“

Hvað með þessa eyju sem þú ætlaðir einu sinni að búa á í Breiðafirði? „Ég var einu sinni að leita að eyju en svo varð það að einhverju fjölmiðlamáli og ég bakkaði út úr því. En ég á mér griðastað, á sumarbústað á Þingvöllum sem ég fer oft í. Hann hentar mér betur. Ég veit ekki hvernig ég ætti að plata unglinginn með mér í afskekktan fjörð eða eyju,“ segir hún og hlær. „Jæja, nú skulið þið koma með mömmu á eyðieyju í tvær vikur! En ég sé til þegar börnin eru búin í skóla. Þá geri ég kannski eitthvað alveg brjálað,“ segir Björk og brosir við tilhugsunina.

Rými fyrir femínisma

Björk sagði í viðtali við Pitchfork að hún skildi konur í tónlistariðnaði sem fyndu fyrir misrétti. 

Er það raunin? Er mikið misrétti í þessum iðnaði?

„Mamma var mjög virk kvenréttindakona og ól mig upp í því að nú væri búið að kvarta og kveina og nú þyrfti að gera hlutina. Svo fór ég og gerði hlutina. Gætti þess að kvarta ekki og kveina. En svo fór ég að finna að yngsta kynslóðin hafði ekki sömu reynslu. Það hafði komið bakslag enn á ný og mér fannst ég þurfa að styðja þær með því að segja þeim að ég skildi þær. Þetta væri erfitt. Og það er rétt.

Þjóðfélagið hefur alltaf ákveðið rými fyrir vissan tíðaranda. Ég held að síðustu ár hafi myndast sífellt meira rými fyrir femínisma. Þetta sveiflast og þegar rýmið myndast er mikilvægt að koma með öll vandamálin á borðið og leysa þau. Svo förum við aftur í tíðarandann þar sem við trúum ekki á vandamálin heldur það að gera,“ segir Björk og á við að þetta séu eðlilegar sveiflur.

Gera allt sjálf

Hún gerir mikið sjálf og gætir vel að öllu markaðsefni, útliti, búningum og skilaboðum sem tengjast tónlist hennar og list. 

„Ég og mitt nánasta starfsfólk, James Merry, Rosemary Llagorstera, Derek Birkett og fleiri, við gerum allt sjálf. Við setjum á netið, Facebook, framleiðum kynningarefni og stýrum því, tónlistarmyndböndum. Mér finnst eins og ég sé að vökva garðinn minn. Þetta er ekki stjórnsemi af illu tagi heldur er ég að vernda lögin mín. Bara á sama hátt og ég passa að dóttir mín fari í réttan skóla. Þetta skiptir mig máli.“

En hvernig líður Björk, þegar hún er að semja? Semur hún mikið?



„Það að semja lag hefur margar hliðar. Ég hugsa að ég semji sirka eitt lag á hverju fullu tungli. Þar er kannski mesta flugið. Ég verð stundum hissa þegar ég hlusta seinna. En það eru líka margar aðrar hliðar á því að búa til tónlist sem ég ber jafn mikla virðingu fyrir. Eins og til dæmis þegar ég er að gera strengjaútsetningar eða klippa saman riþma. Kannski meira eins og að sauma út eða prjóna. Rólegra en alveg eins miklir töfrar og nostur og ef vel tekst upp, alveg eins mikil gjöf. Annar hraði, meira eins og að biðja bænir. Síðan hljóðblandar maður og masterar. Þetta eru allt mismunandi nálganir á sama hlutnum: Að undirbúa gjöf sem mann langar til að gefa, mismikið straumlínulagað. Að velja með natni hverjum af samtölunum við mann sjálfan maður er til í að deila og finnst einhver smá séns á að muni tengja eða finna samruna þarna úti.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×