Lífið

Lokaþáttur Bara geðveik: Hjónabandið þoldi ekki álagið

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
„Við vorum að skilja, ég og maðurinn minn,“ segir Bjarney Vigdís Ingimundardóttir, þegar Lóa Pind tók við hana lokaviðtal fyrir síðasta þáttinn af Bara geðveik sem fer í loftið á Stöð 2 í kvöld.

„Við erum bæði sátt og þetta er gert í vinskap,“ bætir hún við en tekur fram að því fylgi sorg að slíta hjónabandi. „Maður er að syrgja framtíðina sem maður var búinn að plana.

Hún kveðst ekki kenna geðhvarfasýkinni um að svona fór. Álagið hafi verið mikið og af ýmsum toga.

„Ég verð strax ólétt, hann er að vinna á bát sem brennur, þannig að hann verður hálf atvinnulaus, lendir svo í því að slasa sig á hendi og ég fer snemma frá stráknum að vinna. Ég náttúrlega vinn rosalega mikið og hann er mikið heima. Ég vann frameftir kvöldi þannig að hann var sofnaður þegar ég kom heim úr vinnunni og hann var oft farinn út þegar ég vaknaði. Svo er rosalegt púsl að púsla þessu saman með öll þessi sex börn. Þetta tekur allt á og á endanum vorum við hætt að hafa tíma fyrir okkur saman.“

Bjarney flutti út úr íbúðinni sem hún og fyrrverandi eiginmaður hennar leigðu í Borgarnesi. Hún segir að þau hafi ákveðið það í sameiningu til að raska sem minnst tilveru sonarins sem þau eiga saman og stjúpsonar hennar sem einnig bjó hjá þeim. Það komi drengjunum betur, enda sé hann í dagvinnu en hún á kvöldin. Í myndbrotinu sem hér fylgir er hún að leita sér að leiguíbúð á höfuðborgarsvæðinu til að vera nær dætrum sínum sem búa þar ásamt feðrum sínum.

Bjarney er ein fjórum hugrökkum Íslendingum sem ákváðu að hleypa Lóu Pind og Agli Aðalsteinssyni myndatökumanni inn í líf sitt. Þau hafa fylgst með Bjarneyju, Ágústu Ísleifsdóttur, Brynjari Orra Oddgeirssyni og Silju Björk Björnsdóttur mánuðum saman, sumum í tæplega ár til að fá djúpa innsýn í tilveru fólks með geðsjúkdóma.

Lokaþátturinn í heimildaþáttaseríunni „Bara geðveik“ fer í loftið á Stöð 2 í kvöld kl. 20:05. Lóa Pind Aldísardóttir hefur umsjón með þáttunum, Egill Aðalsteinsson er myndatökumaður og Ómar Daði Kristjánsson sér um klippingu.


Tengdar fréttir

Bara geðveik: „Hún bjargaði lífi mínu“

Í 5. þætti af "Bara geðveik“ er kafað ofan í hvaða aðstæður og tilfinningar verða til þess að ung og spræk kona í blóma lífsins tekur þá ákvörðun að vilja binda endi á líf sitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×