Lífið

„Þetta voru flottustu tón­leikar sem haldnir hafa verið á Ís­landi“

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Erpur er hæstánægður með tónleikan XXX Rottweilerhunda sem haldnir voru í Laugardalshöll síðastliðinn föstudag
Erpur er hæstánægður með tónleikan XXX Rottweilerhunda sem haldnir voru í Laugardalshöll síðastliðinn föstudag Vísir/Vilhelm

„Þetta voru flottustu tónleikar sem haldnir hafa verið á Íslandi“ segir Erpur Eyvindarson um 25 ára afmælistónleika XXX Rottweilerhunda sem haldnir voru í Laugardalshöll á föstudaginn. Uppselt var á tónleikana sem fóru fram úr öllum væntingum, samkvæmt Erpi.

Öllu var tjaldað til á tónleikunum. Á útisvæðinu voru fjórir matarvagnar, útibar, borð og bekkir, vindlatjald, tónlist og almenn gleði. Framleiddur var Rottweiler varningur fyrir tónleikana, bolir, hálsmen, plaköt og fleira sem var til sölu á tónleikunum. Sex atriði voru á dagskrá á undan Rottweilerhundunum sjálfum.

Dagskráin raðaðist svona upp:

  • DJ Danni Deluxe
  • Blaffi
  • Ragga Hólm, Steinunn, Kíló og Balatron
  • Kef Lavík
  • Daniil
  • Birnir
  • XXX Rottweiler hundar

Ísland eins og það leggur sig mætti

Erpur Eyvindarsson, Blazroca, er meðlimur Rottweilerhundanna. Hann segir að tónleikarnir hafi bara verið þeir flottustu sem haldnir hafa verið á Íslandi, þetta hafi verið fullkomið. Höllin hafi verið stöppuð og allir með á nótunum. „Aldursdreifingin var líka geðveik, það var fullt af liði sem þurfti að vera með forráðarmann með sér af því þau voru undir aldri, og svo alveg upp í lið sem var bara fertugt fyrir tuttugu og fimm árum þegar við byrjuðum. Þetta var bara geðveikt, þetta var bara Ísland eins og það lagði sig,“ segir Erpur. Hann segir að allir hafi kunnað textana og öskrað með allan tímann.

Laugardalshöllin var stöppuð og allir öskruðu með, segir ErpurSlakibabarinn

Rottweilerhundar nutu liðsinnis margra gestaspilara. „Sesar A mætti. Hann byrjaði náttúrlega að rappa á íslensku, ég byrjaði svo að gera það því hann er náttúrlega bróðir minn. Svo kom Dóri DNA alveg klikkaður inn í Þér er ekki boðið,“ segir Erpur. Í því lagi hafi hann einnig fengið skólahljómsveit Kópavogs undir leiðsögn hans gamla klarinettukennara, Össurs, til að spila með. Hún telji um sjötíu manns, og kom „alveg full force“ inn í lagið. Útgáfan af laginu hafi verið „alveg klikkuð“.

„Svo kom Kársneskórinn, gamli kórinn minn sem ég var í hjá Tótu Björns, hann kom inn í Allir eru að fá sér“ segir Erpur.

Svo hafi Finni á Prikinu mætt, hann hafi líka verið að vinna á Priksbarnum sem sveitin lét smíða við sviðið. Sveitin hafi viljað taka Prikið með sér á tónleikana. „Svo kom Unnar Freyr, U-Fresh, úr hljómsveitinni Hæstu hendinni, og Svala Björgvins joinaði okkur í Botninn upp.“ Emmsjé Gauti hafi svo komið og tekið lagið Við elskum þessar mellur.

Erpur naut sín vel á sviði á föstudaginnSlakibabarinn

„Svo tókum við fullt af gömlum Rottweilerlögum sem við höfum ekki tekið í tuttugu ár, og þar á meðal tókum við Við erum topp, og Bassi Maraj kom inn í því, samdi bara vers fyrir kvöldið. Hann kom bara geðveikur á einhverjum níu metra hælum maður, í korsilettu, alveg þvílíkt sexí á því.“ Páll Óskar sjálfur hafi svo komið í uppklappslaginu, Viltu Dick.

Blaffi, sem Erpur segir vera rappbarn Rottweilerhunda og besti ungi kötturinn í dag frá Njarðvík, kom líka. Svo hafi Helgi Björns komið í stað Ásgeirs Trausta í laginu Hvítir skór, og tekið það í sínum eigin stíl, eins og fyrir reiðmenn vindanna. Það hafi verið vel viðeigandi.

Helgi Björns söng lagið Hvítir SkórVísir/Vilhelm

Alþýðulistamenn en ekki poppræpur að máta sokkabuxur

„Þetta var, þú veist, svona tónleikar... það voru allir bara, það skilur enginn hvað var að gerast þarna. Við erum náttúrulega bara alþýðuband, við erum með þjóðina alveg, við erum engar poppræpur, við erum bara alþýðulistamenn. Við erum ekkert að máta einhverjar sokkabuxur einhvers staðar í einhverjum kellingablöðum skilurðu. En þegar við mætum þá stappast allt,“ segir Erpur.

Liðsmenn sveitarinnar eldast bara vel, og hafa þroskast með aldrinum að sögn Erps. „Jájá, við erum alltaf fávitar skilurðu, en við kannski reynum að eyðileggja ekki líf fólks með fíflalátunum sko. Þetta er kannski svona að vera villigrísir með ábyrgð.“ Samstarfið hafi aldrei verið betra, Bent sé til að mynda edrú og Lúlli kominn með tvo krakka.

XXX Rottweilerhundar á tónleikum í mars. Þeir hafa þroskast með aldrinum og eru nú villigrísir með ábyrgð, segir Erpur.Vísir/Vilhelm

Hann segir að það sem einkenni hljómsveitina XXX Rottweilerhunda sé að liðsmennirnir séu listamenn, ekki popparar. Engu máli skipti um það hvort að „einhver rappbylgja“ sé í tísku eða ekki, þeir séu alltaf sjálfum sér samkvæmir. Þeir geri það sem þeir gera af hreinni ástríðu, og þetta hafi verið gaman frá fyrsta degi.

„Þetta er búið að vera brjálaður undirbúningur, en djöfull var þetta allt fullkomið maður. Maður er bara í vímu sko, ekki af því að ég er ennþá fullur, ég tímdi ekki að fá mér drykk á sviðinu, adrenalínið var svo mikið sko,“ en hann segist venjulega fá sér einn eða tvo þegar hann spilar.

Stefnan er að fara halda tónleika um allt land í sumar, segir Erpur. Planið sé að taka helstu byggðarkjarnana í sumar, en það eigi eftir að skipuleggja það allt saman betur.

Fréttastofa hitti liðsmenn sveitarinnar fyrir tónleikana á föstudaginn:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×