Handbolti

Dagur: Blundar í mér smá frekjuhundur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta, er staddur hér á landi þessa dagana og Guðjón Guðmundsson settist niður með honum í dag.

Gaupi fór um víðan völl með þýska landsliðsþjálfaranum í dag og spurði hann meðal annars út framhaldið hjá þýska landsliðinu en hann er samningsbundinn Þjóðverjum til ársins 2020.

„Það er klásúla í samningnum að við myndum setjast niður á þessum tímapunkti. Það er því í ferli. Hvort ég sjái það fyrir mér næstu 2-3 árin. Það er erfitt að segja. Þegar vel gengur þá er kroppað í mann úr ýmsum áttum. Það getur svo sem farið í allar áttir,“ segir Dagur en það kæmi eflaust mörgum á óvart ef hann stigi frá borði miðað við hversu vel hefur gengið hjá honum.

Dagur segir að þjálfaratíminn hjá þýska landsliðinu hafi ekki bara verið dans á rósum.

„Ég finn fyrir því á hverjum einasta degi. Ég held að það sé líka eitthvað sem ég hef alist upp við. Eitthvað sem ég er vanur að gera. Stundum væri ég feginn að vera í venjulegri 9-5 vinnu. Geta bara slökkt á símanum klukkan fimm. Það er ábyrgðarhlutur að vera með þýska landsliðið,“ segir Dagur en hefur hann þurft að setja upp grímu og fara inn í skelina?

„Ég finn að maður verður svolítið þreyttur á sjálfum sér. Maður er alltaf að svara í einhverjum frösum og það er ekki gaman. Það er erfitt að komast út úr því. Ég hef verið leiðinlegur en það er meira inn á við. Inn í handknattleikssambandið. Einhver svona pólitík sem er þreytandi. Það hefur alltaf blundað í mér smá frekjuhundur þannig að ég tek þá slagi einn á einn. Alltaf minna samt. Ég er aðeins að róast með árunum í því.“

Sjá má innslag Gaupa í heild sinni hér að ofan.

Dagur verður einnig í ítarlegu viðtali við Fréttablaðið í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×