Enski boltinn

Pogba: Zlatan er eins og stóri bróðir fyrir mér

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pogba og Zlatan ná vel saman.
Pogba og Zlatan ná vel saman. vísir/getty
Paul Pogba lítur heldur betur upp til Zlatan Ibrahimovic ef marka má nýjustu orð Pogba um Svíann öfluga.

Báðir voru þeir félagar fengnir til liðs við Manchester United í sumar og hefur umboðsmaður þeirra, Mino Raiola, látið hafa eftir sér að Zlatan hafi sagt honum að koma Pogba til United eftir að Svíinn hafði skrifað undir við Rauðu Djöflana.

Pogba varð dýrasti leikmaður frá upphafi þegar hann gekk til liðs við United sem borgaði rétt tæplega 90 milljónir punda fyrir Frakkann. Það leikur enginn vafi á að samband Zlatan og Pogba er gott.

„Zlatan elskar að grínast. Um leið og við hittumst þarf hann að segja eitthvað, um skóna mína, um hárið mitt,“ sagði Pogba í viðtali nýverið.

Í viðtali við franska miðilinn TF1 sem Aftonbladet birtir í dag hrósar Pogba Svíanum knáa í hástert.

„Zlatan er eins og stóri bróðir fyrir mér. Hann hefur hugarfar sigurvegarans og er stórkostlegur leikmaður. Hann er ótrúlega mikilvægur fyrir United og með hann í liðinu getum við náð markmiðum okkar,“ sagði Pogba og sparaði ekki stóru orðin.

Pogba átti erfitt uppdráttar hjá United í upphafi tímabils en hefur verið að spila betur og betur með hverjum leiknum.

„Ég þarf aðeins meiri tíma til að aðlagast. Það er kominn tími til að vélin fari í gang. Það kemur,“ bætti Pogba við.

Leikur Liverpool og Manchester United verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD annað kvöld klukkan 19:00.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×