Körfubolti

Ólík byrjun hjá tveimur Íslandsmeistarakönum Snæfells

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haiden Denise Palmer og Kristen Denise McCarthy
Haiden Denise Palmer og Kristen Denise McCarthy Vísir/Ernir
Bandarísku leikmenn Íslandsmeistaraliða Snæfells undanfarin tvö ár spila nú báðar í þýsku deildinni en þessir frábæru leikmenn vildu báðar reyna fyrir sér í sterkari deild.

Þetta eru þær Kristen Denise McCarthy (Íslandsmeistari 2015) og Haiden Denise Palmer (Íslandsmeistari 2016). Palmer spilar með Herner en McCarthy með Freiburg.

Efrir þrjár umferðir eru Haiden Palmer og félagar í með fullt hús á toppnum en Kristen McCarthy og félagar í Freiburg hafa aftur á móti tapað öllum sínum þremur leikjum.

Það verður þó að taka inn í myndina að Freiburg hefur spilað við þrjú af sterkustu liðum deildarinnar í fyrstu umferðunum en tapaði engu að síður síðasta leik með 37 stigum á móti Wasserburg.

Þær mættust strax í fyrstu umferð og þar vann lið Palmer 72-66 heimasigur. Palmer var með 15 stig, 9 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta í leiknum. McCarthy var með 16 stig, 2 fráköst, 1 stoðsendingu og 3 stolna bolta.

Haiden Palmer er kannski bara í 20. sæti yfir stigahæstu konur (13,3) en hún er líka í 2. sæti í stoðsendingum (4,3), í 5. sæti í stolnum boltum (2,7) og í 18. sæti yfir flest fráköst í leik (5,7).

McCarthy er ofar í stigaskori en hún er fimmti stigahæsti leikmaður deildarinnar með 18.0 stig í leik. Hún er aftur á móti neðar en Palmer í öllum hinum tölfræðiþáttunum.  

Gamla liðið þeirra Snæfell varð meistari meistaranna á sunnudaginn og heimsækir Skallagrím annað kvöld í fyrstu umferð Domino´s deildar kvenna. Fyrirliðar, þjálfarar og forráðamenn spá því að Snæfell verði Íslandsmeistari fjórða árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×