Körfubolti

Pavel: Craion væri heimsklassa línumaður í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Craion í fyrsta leiknum á móti Haukum.
Michael Craion í fyrsta leiknum á móti Haukum. Vísir/Ernir
Michael Craion, miðherji KR-inga, hefur farið á kostum með KR-liðinu í vetur og það er kannski ekkert skrýtið að leikstjórnandi liðsins sé ánægður með sinn mann.

Michael Craion var með 19 stig, 12 fráköst og 5 varin skot í 30 stiga sigri KR á Haukum í gær í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta karla.

Pavel Ermolinskij átti ellefu stoðsendingar í leiknum þar af tvær þeirra á Michael Craion en bandaríski miðherjinn skoraði alls níu körfur inn í teig í leiknum.

Pavel Ermolinskij fór á Twitter eftir leikinn og hrósaði Michael Craion með öðruvísi hætti.

„Ef Craion hefði æft handbolta væri hann heimsklassa línumaður? Byggður í þetta sport," skrifaði Pavel Ermolinskij á Twitter og það er hægt að taka undir það.

Pavel Ermolinskij hefur verið duglegur að finna Michael Craion og þá sérstaklega eftir vagg og veltu eða þegar Craion setur hindrun fyrir Pavel og rúllar síðan í átt að körfunni.

Það eru fá lið sem ná að leysa það þegar báðir er í rétta gírnum og jafnframt auðvelt að sjá Craion fyrir sér í hlutverki króatíska línumannsins Igor Vori hvort sem er í vörn eða sókn.

Michael Craion hefur skorað 22,5 stig og tekið 11,1 frákast að meðaltali í leik á Íslandsmótinu í vetur en í úrslitakeppninni er hann með 21,1 stig og 10,0 fráköst í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×