Erlent

Móðir Camerons gaf honum 200 þúsund pund

Birgir Olgeirsson skrifar
David Cameron
David Cameron Vísir/EPA
Móðir Davids Cameron, forsætisráðherra Bretlands, gaf honum 200 þúsund pund að gjöf, um 34 milljónir íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag, eftir að faðir hans dó. Cameron hefur opinberað skattframtöl sín frá árunum 2009 til 2015 til að sýna fram á að hann sveik ekki undan skatti eftir að hafa verið gagnrýndur harðlega fyrir að hafa átt hlut í aflandsfélagi föður síns heitins, Ian Cameron. 

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC greinir frá því að móðir hans lagði tvívegis inn á hann 100 þúsund pund ári eftir að hann erfði 300 þúsund pund frá föður sínum árið 2010.

Leiðtogi Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, segir mörgum spurningum ósvarað eftir að Cameron opinberaði bókhald sitt. Segir Corbyn að mögulega sé tilefni til að skoða reglur um erfðaskatt í því samhengi en Corbyn hefur sjálfur gefið það út að hann ætli að opinbera skattframtöl sín fljótlega.

David Cameron segist hafa opinberað skattframtöl sín til að sýna og sanna að hann hafi ekkert að fela.

Lekinn á Panama-gögnunum leiddi í ljós að faðir hans átti aflandsfélagið Blairmore Holdings í skattaskjóli en það var lögmannsstofan alræmda, Mossack Fonseca, sem kom því á laggirnar fyrir hann. David Cameron viðurkenndi síðar að hafa átt hlut í félaginu ásamt eiginkonu sinni, Söru Cameron, sem þau síðar seldu með hagnaði. Við skoðun á skattframtölum Camerons kemur í ljós að hann og eiginkona hans högnuðust um 19 þúsund pund vegna sölunnar en af því gaf Cameron upp til skatts 9.500 pund. 


Tengdar fréttir

Cameron stendur höllum fæti vegna mótmælanna á Íslandi

Þúsundir mótmælenda komu saman í Lundúnum í dag til að krefjast afsagnar David Cameron forsætisráðherra landsins vegna tengsla hans við skattaskjól. Stjórnmálafræði-prófessor segir Cameron standa höllum fæti í Bretlandi vegna atburða síðustu daga og mótmælanna á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×