Innlent

Ánægður með að vera með hjálm þegar ekið var á hann

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ómar Ragnarsson
Ómar Ragnarsson Vísir/Stefán
Ekið var á Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamann, á Grensásvegi síðastliðinn föstudag þar sem hann var að fara yfir gangbraut á reiðhjóli sínu. Ómar greinir frá slysinu á bloggsíðu sinni og birtir með mynd af hjálmi sem hann kveðst hafa keypt sér þegar hann fór að stunda hjólreiðar að nýju fyrir rúmu ári.

Ómar segist þakklátur fyrir að geta skrifað pistilinn á bloggið en með honum vill hann leggja sitt af mörkum í umræðunni um hjálmanotkun, sem börnum er skylt að nota þegar þau hjóla en fullorðnum ekki. Ómar segir svona frá slysinu og hvernig hjálmurinn kom honum til bjargar:

„Með honum stangaði ég og braut framrúðu bíls sem ekið var á mig á gangbraut við Grensásveg síðdegis á föstudag.

Hjálmurinn varði líka höfuð mitt fyrir miklu þyngra höggi þegar ég skall í götuna meira en tíu metrum frá gangbrautinni eftir að bíllinn hafði hent mér af þaki sínu þangað.

Þetta voru þung högg, ekki létt. Maður brýtur ekki framrúðu bíls svo léttilega með höfðinu. Allur líkaminn varð fyrir hnjaski og meiðslum, báðir ökklar, bæði hné, báðir olnbogar, hægri öxl og hálsinn.“

Þá segir Ómar jafnframt frá því að læknirinn hafi talið það „magnað og algera hundaheppni“ að ekkert bein hafi brotnað.

Ómar segist skrifa pistilinn á bloggið þar sem hann hafi séð marga hjóla hjálmlausa síðan hann hóf að hjóla að nýju fyrir ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×