Innlent

Viðrar vel til mótmæla

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Veðurstofan spáir ljúfu veðri síðdegis í dag.
Veðurstofan spáir ljúfu veðri síðdegis í dag. Vísir/Veðurstofan
Veðurguðirnir eru með þeim þúsundum í liði sem hyggjast mótmæla á Austurvelli klukkan 17 í dag. Samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands verður logn og um átta stiga hiti en skýjað. Það verður því milt og gott veður, þó er best að klæða sig í hlý föt fyrir útivistina.

Rúmlega átta þúsund manns hafa boðað komu sína á mótmælin á Facebook og tæplega sjö þúsund sagst áhugasamir um að mæta. Á mótmælunum verður krafist afsagnar forsætisráðherra og þess krafist að boðað verði til kosninga strax.

„Þessi ríkisstjórn er vanhæf, ekki aðeins einstakir þingmenn og ráðherrar. Þessari stjórn ekki treystandi lengur, að mati meirihluta þjóðarinnar. Almenningur óttast að ríkisstjórnin ætli að færa stóreignamönnum sem mest af eignum ríkisins áður en næstu kosningar verða eftir um ár. Það má ekki verða. Því verður þessi ríkisstjórn að víkja, vegna eigin verka og vegna eigin spillingar,“ segir í texta viðburðarins.

Þá hefur einnig verið blásið til mótmæla á Akureyri á sama tíma. Þar verður örlítið vindasamara og kaldara í veðri en þurrt og bjart. Um hundrað hafa boðað komu sína þangað en til stendur að safnast saman á Ráðhústorginu. „Við krefjumst þess að ríkisstjórnin segi umsvifalaust af sér vegna spillingar og afglapa forstætisráðherra og sumra annarra sem í stjórninni eru,“ segja forsvarsmenn mótmælanna á Akureyri. Hér má nálgast viðburðinn á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×