Innlent

Tíu prósent bera mikið traust til Sigmundar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Sigtryggur/Stefán
Traust til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, er í sögulegu lágmarki. Einungis tíu prósent Íslendinga bera mikið traust til hans samkvæmt nýrri könnun MMR.

Þá hefur traust til Katrínar Jakobsdóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar aukist töluvert frá síðustu mælingu í apríl 2015. 59,2 prósent sögðust bera mikið traust til Katrínar og 54,5 prósent til Ólafs Ragnars.

Spurt var: Hversu mikið eða lítið traust berð þú til eftirfarandi aðila.Mynd/MMR
21,7 prósent aðspurðra sögðust bera mikið traust til Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

81,0 prósent svarenda sögðust bera lítið traust til Sigmundar. Það er nærri því 18 prósentum meira en í apríl í fyrra. Þá fjölgaði þeim sem sögðust bera lítið traust til Dags B. Eggertssonar einnig á milli ára, eða um rúm tíu prósent.

Trausti skipt eftir stuðningi við stjórnmálaflokka.Mynd/MMR
Samkvæmt niðurstöðum hennar bera stuðningsmenn Framsóknarflokksins meira traust til Ólafs Ragnar Grímssonar, forseta, en til Sigmundar Davíðs, formanns. 97,2 prósent sögðust treysta forsetanum en 77,8 prósent sögðust treysta formanninum.

Sigmundur nýtur mikils trausts meðal Framsóknarmanna en mjög lítils trausts meðal stuðningsmanna annarra flokka.

Könnun MMR var framkævmd dagana 4. og 5. apríl. Svarfjöldi var 969 einstaklingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×