Viðskipti innlent

Forsetahjónin eiga ekkert á aflandseyjum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Í svari forseta kemur fram að hvorki Ólafur Ragnar Grímsson né Dorrit Moussaieff eiga félög eða reikninga á aflandseyjum.
Í svari forseta kemur fram að hvorki Ólafur Ragnar Grímsson né Dorrit Moussaieff eiga félög eða reikninga á aflandseyjum. vísir/Anton brink
Hvorki Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, né Dorrit Moussaieff, eiginkona hans, eiga reikninga eða félög á aflandssvæðum. Þetta kemur fram í svari forsetans við fyrirspurn Fréttablaðsins. Spurt var: Átt þú, Ólafur Ragnar Grímsson, eða eiginkona þín, Dorrit Moussaieff, reikninga eða einhver félög á aflandssvæðum?

Eins og fram hefur komið mun Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, láta af embætti forsætisráðherra eftir að upp komst um tengsl hans við félagið Wintris. Félagið er í eigu eiginkonu hans og er skráð á Bresku Jómfrúaeyjum.

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis sem birt var í gær vilja 69 prósent svarenda að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segi af sér og 63 prósent að Ólöf Nordal innanríkisráðherra segi af sér vegna tengsla sinna við aflandsfélög.

Í frétt Viðskiptablaðsins sem birtist í ágúst 2012 kom fram að forsetafrúin greiðir alla skatta erlendis. „Allar tekjur og eignir Dorritar eru erlendis og eru, eins og ber að gera, skattlagðar þar,“ sagði í svari forsetaskrifstofu. Hins vegar komu fram upplýsingar um að forsetafrúin greiddi skatta í Bretlandi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×