Innlent

Flugi á leið til Egilsstaða snúið við vegna bilunar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bombardier Q-400 vélin þegar hún kom til landsins.
Bombardier Q-400 vélin þegar hún kom til landsins. Vísir/Vilhelm

Flugvél Flugfélags Íslands, á leið frá Reykjavík til Egilsstaða, var snúið við og henni lent aftur í Reykjavík eftir að bilun kom upp í vökvakerfi vélarinnar.

Árni Gunnarsson Vísir/GVA

Flugvélin er af gerðinni Bombardier Q-400 og kom inn í flugflota félagsins fyrir rúmum mánuði. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem bilun kemur upp í henni en fyrir tveimur vikum var vélinni lent á Keflavíkurflugvelli eftir að vængbörð vélarinnar voru ekki rétt stillt. Þá var vélin einnig á leið til Egilsstaða frá Reykjavík.

„Það mál var annars eðlis en nú. Þetta tengist vökvakerfi vélarinnar en það var smávægilegur leki í því,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, í samtali við Vísi. Hann segir að bilunin sem kom upp sé ekki bundin við þessa tegund véla.

Bilun vélarinnar hafði í för með sér röskun á flugi félagsins í kvöld og fyrirséð er að það sama verði upp á teningnum á morgun. Vélin átti að fljúga til Egilsstaða og til baka aftur og í kjölfarið túr á Akureyri. Fluginu austur var aflýst en hægt var að senda aðra vél til Akureyrar. Sú fór í loftið fyrir skemmstu.

„Við bíðum eftir varahlutum til að hægt sé að gera við vélina en hún kemst væntanlega í lag á morgun. Það verður einhver röskun á morgun og við munum hafa samband við farþega vegna þessa,“ segir Árni.


Tengdar fréttir

Ekkert vesen á nýju vélinni

Rekstur fyrstu Bom­bardier Q400 flugvélar Flugfélags Íslands gengur vel, að sögn framkvæmdastjórans, Árna Gunnarssonar. Fyrr í mánuðinum þurfti að lenda vélinni á Keflavíkurflugvelli í stað Reykjavíkurflugvallar vegna bilunar í vængbörðum en að öðru leyti segir Árni hafa gengið ágætlega.
Fleiri fréttir

Sjá meira