Erlent

Auðæfi Bin Ladens námu fjórum milljörðum króna

Þórdís Valsdóttir skrifar
Osama Bin Laden, fyrrverandi leiðtogi Al-Kaída hryðjuverkasamtakanna.
Osama Bin Laden, fyrrverandi leiðtogi Al-Kaída hryðjuverkasamtakanna. Nordicphotos/AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum gerðu fjölmörg einkaskjöl Osama Bin Ladens, fyrrverandi leiðtoga Al-Kaída hryðjuverkasamtakanna, opinber í dag. Meðal skjalanna var að finna erfðaskrá Bin Ladens auk fjölda persónulegra bréfa.

Í erfðaskránni sem rituð var seint á tíunda áratugnum, kemur fram að hann átti 29 milljónir Bandaríkjadala (jafnvirði 3,8 milljarða króna) og þar kom fram hvernig hann vildi að arfinum yrði deilt. Bin Laden hvatti fjölskyldu sína til að framfylgja erfðaskrá sinni og eyða arfleifðinni í jihad, hið heilaga stríð íslams.

Af persónulegum bréfum Bin Ladens má ráða að hann hafi óttast það að dagar hans yrðu ekki fleiri. Í bréfi sem Bin Laden skrifaði föður sínum árið 2008 óskaði hann eftir því að faðir hans myndi hugsa um eiginkonuna og synina ef til þess kæmi að hann yrði ráðinn af dögum.

Osama Bin Laden bar höfuðábyrgð á hryðjuverkaárásunum 11. september 2001 og eftir árásina lögðu Bandaríkjamenn mikla áherslu á að finna hann. Bin Laden féll í skotbardaga í maí 2011 þegar fámenn bandarísk hersveit gerði áhlaup á höll sem hann dvaldi í nálægt Abbottabad í Pakistan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira