Handbolti

Aron og félagar sóttu tvö stig til Þýskalands | Róbert komst ekki á blað

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Aron í leik með Veszprém.
Aron í leik með Veszprém. Vísir/EPA

Aron Pálmarsson og félagar í Veszprém sóttu tvö stig til Þýskalands í 29-28 sigri á Flensburg í dag en með sigrinum heldur ungverska liðið í við PSG á toppi A-riðilsins í Meistaradeild Evrópu.

Heimamenn í Flensburg byrjuðu leikinn betur og leiddu verðskuldað í hálfleik 12-10 en leikmenn Veszprém komu mun einbeittari til leiks í seinni hálfleik.

Náði Veszprém þegar mest var þriggja marka forskoti í seinni hálfleik en Flensburg var aldrei langt undan og náði að minnka muninn aftur niður í eitt mark.

Lengra komst þýska félagið ekki og fögnuðu leikmenn Veszprém því sigrinum af krafti en Veszprém er með 21 stig að 13 leikjum loknum í A-riðli, stigi minna en PSG.

Aron náði sér ekki nægilega vel á strik í leiknum í dag og lauk leik með aðeins eitt mark en markmenn Flensburg náðu oft að verja vel frá honum.

Róbert Gunnarsson var á leikskýrslu hjá PSG í 27-22 sigri á Wisla Plock í Póllandi en Róberti tókst ekki að komast á blað í leiknum.Fleiri fréttir

Sjá meira