Körfubolti

KR missir Ægi Þór til Spánar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson fagnar bikarmeistaratitlinum með Helga Má Magnússyni.
Ægir Þór Steinarsson fagnar bikarmeistaratitlinum með Helga Má Magnússyni. Vísir/Hanna
Ægir Þór Steinarsson, leikstjórnandi Íslands- og bikarmeistara KR, hefur samið við spænska liðið CB Penas Huesca og mun því ekki klára tímabilið með Íslands- og bikarmeisturum KR.

Ægir mun fara strax til spænska liðsins sem er í 2. deildinni á Spáni (LEB Gold) og situr í 4. til 5. sæti deildarinnar. Þetta er staðfest á fésbókarsíðu KR-inga í kvöld en RÚV sagði fyrst frá þessu í kvöldfréttum sínum.

„Ægir og KR höfðu klásúlu í leikmannasamningi hans sem gerði Ægi kleift að skoða tilboð erlendis frá til 5. janúar. Þrátt fyrir að klásúlan ætti ekki við núna, ákvað stjórn deildarinnar að standa ekki í vegi fyrir þessum vistaskiptum," segir á KR Karfa á fésbókinni.

Ægir Þór Steinarsson var með 11,4 stig, 6,8 stoðsendingar og 5,5 fráköst að meðaltali í Domino´s deildinni og vann sinn fyrsta stóra titil á dögunum þegar hann hjálpaði KR-liðinu að vinna langþráðan sigur í bikarkeppninni.

„Það er yfirlýst stefna KR að styðja við bakið á sínum leikmönnum og það á svo sannarlega við í þessum tilfelli, enda fagnaðarefni að afreksmenn og konur elti drauma sína og láti þá rætast. Ægir hefur svo sannarlega fallið vel inn í KR fjölskylduna og staðið sig gríðarlega vel innan sem utan vallar. Brotthvarf hans er áskorun og tækifæri fyrir aðra leikmenn til að nýta," segir ennfremur í yfirlýsingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×