Körfubolti

KR missir Ægi Þór til Spánar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson fagnar bikarmeistaratitlinum með Helga Má Magnússyni.
Ægir Þór Steinarsson fagnar bikarmeistaratitlinum með Helga Má Magnússyni. Vísir/Hanna

Ægir Þór Steinarsson, leikstjórnandi Íslands- og bikarmeistara KR, hefur samið við spænska liðið CB Penas Huesca og mun því ekki klára tímabilið með Íslands- og bikarmeisturum KR.

Ægir mun fara strax til spænska liðsins sem er í 2. deildinni á Spáni (LEB Gold) og situr í 4. til 5. sæti deildarinnar. Þetta er staðfest á fésbókarsíðu KR-inga í kvöld en RÚV sagði fyrst frá þessu í kvöldfréttum sínum.

„Ægir og KR höfðu klásúlu í leikmannasamningi hans sem gerði Ægi kleift að skoða tilboð erlendis frá til 5. janúar. Þrátt fyrir að klásúlan ætti ekki við núna, ákvað stjórn deildarinnar að standa ekki í vegi fyrir þessum vistaskiptum," segir á KR Karfa á fésbókinni.

Ægir Þór Steinarsson var með 11,4 stig, 6,8 stoðsendingar og 5,5 fráköst að meðaltali í Domino´s deildinni og vann sinn fyrsta stóra titil á dögunum þegar hann hjálpaði KR-liðinu að vinna langþráðan sigur í bikarkeppninni.

„Það er yfirlýst stefna KR að styðja við bakið á sínum leikmönnum og það á svo sannarlega við í þessum tilfelli, enda fagnaðarefni að afreksmenn og konur elti drauma sína og láti þá rætast. Ægir hefur svo sannarlega fallið vel inn í KR fjölskylduna og staðið sig gríðarlega vel innan sem utan vallar. Brotthvarf hans er áskorun og tækifæri fyrir aðra leikmenn til að nýta," segir ennfremur í yfirlýsingunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.