Enski boltinn

Styttist óðum í Welbeck

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Welbeck spilaði klukkutíma með varaliði Arsenal fyrr í vikunni.
Welbeck spilaði klukkutíma með varaliði Arsenal fyrr í vikunni. vísir/getty

Svo gæti farið að Danny Welbeck yrði í leikmannahópi Arsenal á sunnudaginn þegar liðið mætir Leicester City í toppslag í ensku úrvalsdeildinni.

Welbeck hefur ekki spilað mínútu á tímabilinu vegna erfiðra hnémeiðsla. Framherjinn er hins vegar allur að koma til og lék í klukkutíma með varaliði Arsenal fyrr í vikunni.

„Það styttist óðum í Welbeck. Hann er í góðu líkamlegu formi en þarf bara að komast í leikform,“ sagði Wenger á blaðamannafundi fyrir leikinn mikilvæga gegn Leicester. Arsenal er fimm stigum á eftir toppliðinu og þarf helst að vinna leikinn á sunnudaginn til að missa Leicester ekki of langt fram úr sér.

Wenger gaf það einnig í skyn að Per Mertesacker yrði ekki í byrjunarliðinu gegn Leicester sem er með mjög hraða leikmenn framarlega á vellinum.

„Per Mertesacker er frábær leiðtogi en ég er með þrjá miðverði og verð að vega og meta hverja ég á að velja út frá frammistöðu, leikformi sem og andstæðingnum og styrkleikum hans,“ sagði Wenger.

Arsenal er aðeins annað tveggja liða sem hefur tekist að vinna Leicester í úrvalsdeildinni í vetur. Skytturnar báru sigurorð af Refunum á útivelli 26. september í fyrra. Leikar fóru 2-5 en Alexis Sánchez skoraði þrennu fyrir Arsenal í leiknum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira