Erlent

Dregur í efa að vopnahléi verði komið á

Samúel Karl Ólason skrifar
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. Vísir/AFP

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, dregur í efa að hægt verði að koma á vopnahléi í lok vikunnar. Þjóðarleiðtogar stungu upp á því á fundi sínum í Munchen á föstudaginn. Forsetinn segir að ómögulegt verði að fá alla til að leggja niður vopn sín, en þar að auki þurfi meira til.

„Vopnahlé verður að fela í sér að hryðjuverkamenn hætti að styrkja stöðu sína. Færa til vopn, búnað og hryðjuverkamenn. Þeir mega ekki styrkja stöðu sína,“ sagði hann í ríkissjónvarpi Sýrlands nú í kvöld. Samkvæmt AFP er þetta í fyrsta sinn sem hann tjáir sig um vopnahléið.

Umræddu vopnahléi er ætlað að hjálpa til við að koma friðarviðræðum af stað. Viðræður um það virðast þó hafa haft öfug áhrif, þar sem allir aðilar virðast nú keppast um að styrkja stöðu sína svo þeir hafi meira vægi í hugsanlegum friðarviðræðum.

Fregnir af loftárásum hafa heyrst í gífurlegu mæli og hafa fjölmörg þorp skipt um eigendur. Að mestu virðast átökin eiga sér stað við borgina Aleppo, þar sem stjórnarherinn hefur gert áhlaup gegn uppreisnar- og vígamönnum.

Bæði Bandaríkin og Sameinuðu þjóðirnar fordæmdu dag loftárásir sem gerðar voru á sjúkrahús og skóla í Sýrlandi í dag. Um 50 manns létu lífið samkvæmt SÞ, en Bandaríkin saka Rússa um að hafa gert árásirnar. Minnst fimm sjúkrahús og tveir skólar urðu fyrir árásum.

Sameinuðu þjóðirnar segja árásirnar vera greinilegt brot gegn alþjóðalögum. Þriðjungur sjúkrahúsa í Sýrlandi eru óstarfhæf og fjórðungur skóla.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sagði í dag að atvik sem þessi vörpuðu rýrð á vilja og getu Rússa við að hjálpa til við að koma á friði í Sýrlandi. Sendiherra Sýrlands í Rússlandi sagði hins vegar að Bandaríkin hefðu gert umræddar árásir.

Hægt er að fylgjast með framvindu mála í Sýrlandi á gagnvirku korti hér.

Myndband frá borinni Daraya sem birt var í dag.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira