Erlent

Gervilimur mótmælanda hæfði ráðherrann

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ástartækið hafnaði í andliti ráðherrans.
Ástartækið hafnaði í andliti ráðherrans. skjáskot

Mótmælin vegna undirritunar fríverslunarsamningsins TPP, sem tólf Kyrrahafsríki eiga aðild að, tóku óvænta stefnu í gær. Þá varpaði einn mótmælendanna gervilim að efnahagsráðherra Nýja-Sjálands, Steven Joyce, er hann ræddi við þarlenda fjölmiðla. Fór það svo að limurinn hæfði Joyce í andlitið, í beinni útsendingu.

Þúsundir hafa safnast saman undanfarna daga í Nýja-Sjálandi og mótmæli undirritun samningsins á fimmtudag. Samningurinn nefnist á ensku Trans-Pacific Partnership, skammstafað TPP, og felur í sér niðurfellingu tolla og fleira sem auðveldar ríkjunum að eiga viðskipti sín á milli.

Sú leynd, sem hvílt hefur yfir samningaviðræðunum, hefur verið harðlega gagnrýnd. Einnig hefur gagnrýnin beinst að möguleikum fyrirtækja til þess að lögsækja ríki til að tryggja stöðu sína.

Sjá einnig: Samningur Kyrrahafsríkja undirritaður

Nokkur hópur mótmælenda var samankominn í Waitangi, norðan af Auckland, þar sem Steven Joyce ræddi við fjölmiðlamenn um samninginn sem hann sagði „þann stærsta á okkar tímum.“

Er mótmælandinn kastaði hjálpartækinu kallaði hann: „Þetta færðu fyrir að nauðga fullveldinu,“ og lenti það í andliti ráðherrans sem fyrr segir. Öryggisverðir fylgdu henni af svæðinu sem útskýrði síðar að hún hefði áhyggjur af því að samningurinn myndi leiða til hækkunar á lyfjaverði. Ráðherrann brást ágætlega við uppátækinu.

„Þegar öllu var á botninn hvolft þá fannst okkur þetta bara frekar fyndið,“ sagði Joyce. „Alltaf eitthvað nýtt í stjórnmálum, það er heiður að fá að þjóna,“ bætti hann við.
 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira