Erlent

Gervilimur mótmælanda hæfði ráðherrann

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ástartækið hafnaði í andliti ráðherrans.
Ástartækið hafnaði í andliti ráðherrans. skjáskot

Mótmælin vegna undirritunar fríverslunarsamningsins TPP, sem tólf Kyrrahafsríki eiga aðild að, tóku óvænta stefnu í gær. Þá varpaði einn mótmælendanna gervilim að efnahagsráðherra Nýja-Sjálands, Steven Joyce, er hann ræddi við þarlenda fjölmiðla. Fór það svo að limurinn hæfði Joyce í andlitið, í beinni útsendingu.

Þúsundir hafa safnast saman undanfarna daga í Nýja-Sjálandi og mótmæli undirritun samningsins á fimmtudag. Samningurinn nefnist á ensku Trans-Pacific Partnership, skammstafað TPP, og felur í sér niðurfellingu tolla og fleira sem auðveldar ríkjunum að eiga viðskipti sín á milli.

Sú leynd, sem hvílt hefur yfir samningaviðræðunum, hefur verið harðlega gagnrýnd. Einnig hefur gagnrýnin beinst að möguleikum fyrirtækja til þess að lögsækja ríki til að tryggja stöðu sína.

Sjá einnig: Samningur Kyrrahafsríkja undirritaður

Nokkur hópur mótmælenda var samankominn í Waitangi, norðan af Auckland, þar sem Steven Joyce ræddi við fjölmiðlamenn um samninginn sem hann sagði „þann stærsta á okkar tímum.“

Er mótmælandinn kastaði hjálpartækinu kallaði hann: „Þetta færðu fyrir að nauðga fullveldinu,“ og lenti það í andliti ráðherrans sem fyrr segir. Öryggisverðir fylgdu henni af svæðinu sem útskýrði síðar að hún hefði áhyggjur af því að samningurinn myndi leiða til hækkunar á lyfjaverði. Ráðherrann brást ágætlega við uppátækinu.

„Þegar öllu var á botninn hvolft þá fannst okkur þetta bara frekar fyndið,“ sagði Joyce. „Alltaf eitthvað nýtt í stjórnmálum, það er heiður að fá að þjóna,“ bætti hann við.
 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira