Innlent

„Ferðasjúki barþjónninn“ í varðhaldi þar til dómur fellur í Hæstarétti

Bjarki Ármannsson skrifar
Rúm átta ár eru síðan Fokin hlaut fjögurra mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa svikið tæpa milljón út úr Icelandair.
Rúm átta ár eru síðan Fokin hlaut fjögurra mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa svikið tæpa milljón út úr Icelandair. Vísir/GVA

Eistneska ríkisborgaranum Konstantin Deniss Fokin, sem hlaut í síðasta mánuði hálfs árs fangelsisdóm fyrir fjársvik við Héraðsdóm Reykjaness, hefur verið gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans í Hæstarétti. Hann mun þó ekki sæta varðhaldi lengur en til 31. mars næstkomandi.

Fokin hlaut dóm fyrir að hafa svikið út farmiða í flug á vegum Icelandair fyrir um 327 þúsund íslenskar krónur í júlí í fyrra. Rannsókn á öðrum meintum brotum Fokin stendur enn yfir en í því máli er honum meðal annars gert að sök að hafa svikið mikið magn útivistarfatnaðar úr verslunum á meðan hann sætti farbanni hér á landi vegna rannsóknar fjársvikamálsins.

Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldið yfir Fokin í dag. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá því á föstudag segir að nauðsynlegt þyki að hann sæti áfram varðhaldi þar til dómur fellur í Hæstarétti, meðal annars þar sem hann hafi engin tengsl við nokkurn mann hér á landi. Af þeim sökum telji lögregla hættu á að hann muni reyna að komast úr landi gangi hann laus.

Fokin hefur áður hlotið dóma hér á landi, í heimalandi sínu og í öðrum Evrópuríkjum. Rúm átta ár eru síðan Fokin, sem nefndur var „ferðasjúki barþjónninn“ í umfjöllun Vísis árið 2007, hlaut fjögurra mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa svikið tæpa milljón út úr Icelandair. Bókaði hann þá flugmiða á netinu með stolnum greiðslukortanúmerum sem hann komst yfir við störf á bar í London.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira