Enski boltinn

Sex stórlið í Evrópu á eftir John Stones

Anton Ingi Leifsson skrifar
John Stones í búningi Everton.
John Stones í búningi Everton. vísir/getty

Að minnsta kosti sex stórlið í Evrópu eru á eftir John Stones, miðverði Everton, ef marka má Jonthan Northcroft, blaðamann Sunday Times, en hann var í viðtali í Sunday Supplement þættinum á Sky Sports í morgun.

Hinn 21 árs Stones hélt tryggð við Everton í sumar þrátt fyrir að Chelsea hefði mikinn áhuga á að krækja í miðvörðinn snjalla og nú virðast enn fleiri lið vera á eftir kappanum.

Real Madrid, Barcelona, Chelsea og Manchester City eru sögð áhugasöm ásamt Manchester United og Bayern Munchen.

„Þetta er fáheyrð staða fyrir enskan leikmann að vera í miðju svona mikils áhuga frá topp félögum í heiminum," sagði Northcroft og hélt áfram:

„Hann er á innkaupalista Real Madrid, en það verður að koma í ljós hvort þeir mega kaupa í sumar. Hann er þó á lista þeirra ásamt Robert Lewandowski og David Alaba."

„Barcelona líkar vel við hann, Chelsea hefur haft áhuga á honum í smá tíma núna og Manchester City, sem er að undirbúa komu Pep Guardiola, hafa einnig áhuga að krækja í hann. Manchester  United og Bayern Munchen eru bakdyramegin líka."

„Þetta er óvenjuleg staða fyrir 21 árs gamlan varnarmann. Það verður mjög erfitt að halda honum og að neita honum að fara í annað skiptið gæti verið erfitt fyrir Stones auk annara ungra leikmanna í klefanum."

Everton hefur ekki spilað eins vel og vonir stóðu fyrir tímabilið. Liðið er í tólfta sæti deildarinnar eftir 2-1 tap gegn Swansea í dag, en þar gerði Stones dýrkeypt mistök.

„Ég held að Everton hafi ekki bætt sig nægilega mikið sem lið fyrir John Stones svo hann hugsi að það sé best fyrir hans feril að vera áfram á Goodison," sagði Northcroft.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira