Handbolti

Svíar gerðu sitt en þurfa að bíða til kvölds

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jonas Källman í leiknum í dag.
Jonas Källman í leiknum í dag. Vísir/Getty

Svíþjóð vann öruggan sigur á Ungverjalandi, 22-14, á Evrópumeistaramótinu í Póllandi í dag og er þar með í sterkri stöðu fyrir forkeppni Ólympíuleikanna.

Svíar munu tryggja sér sæti í forkeppninni ef að Rússum mistekst að vinna Spánverja í kvöld, en Spánn verður þá að spila um sæti í undanúrslitum keppninnar.

Svíþjóð hafði þriggja marka forystu í hálfleik, 10-7, en náði að stinga af í síðari hálfleik. Munurinn var orðinn níu mörk, 17-8, eftir tíu mínútur í síðari hálfleik og úrslitin í raun ráðin.

Lukas Nilsson og Viktor Östlund skoruðu fimm mörk hvor fyrir Svía í leiknum en markahæstur hjá Ungverjalandi var Richard Bodo með fimm mörk. Mattias Andersson átti stórleik í marki Svía og varði 17 skot - 55 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig í leiknum.

Svíþjóð er í fjórða sæti milliriðls 2 með fjögur stig en Ungverjar eru án stiga í riðlinum. Rússar eru með þrjú stig en eiga leik til góða gegn Spáni í kvöld sem fyrr segir.

Í milliriðli 1 mættust botnliðin Makedónía og Hvíta-Rússland, þar sem síðarnefnda liðið hafði nauman sigur, 30-29. Hvít-Rússar enduðu með tvö stig í riðlinum en Makedónía eitt.
Fleiri fréttir

Sjá meira