Viðskipti innlent

Fær vottun um lífræna eggjaframleiðslu

Atli Ísleifsson skrifar
Rannveig Guðleifsdóttir, verkefnastjóri hjá Vottunarstofunni Tún, Stefán Már Símonarson, framkvæmdastjóri Nesbúeggja, og Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Vottunarstofunnar Tún.
Rannveig Guðleifsdóttir, verkefnastjóri hjá Vottunarstofunni Tún, Stefán Már Símonarson, framkvæmdastjóri Nesbúeggja, og Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdarstjóri Vottunarstofunnar Tún. Mynd/Nesbúegg

Vottunarstofan Tún hefur formlega staðfest að Nesbúegg uppfylli allar kröfur og reglur um framleiðslu á lífrænum eggjum.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að þetta sé fyrsta framleiðslufyrirtækið á sínu sviði hérlendis sem hljóti slíka vottun. Fyrstu lífrænt vottuðu eggin frá fyrirtækinu urðu fáaunleg í gær.

Stefán Már Símonarson, framkvæmdastjóri Nesbúeggja, segir að með þessu sé verið að koma til móts við hinn ört vaxandi hóp neytenda sem kalli eftir lífrænum afurðum.

„Við höfum auk þess um langt skeið haft aukna velferð varphænsna og næringargæði afurða á stefnuskrá okkar. Við erum því fjarska stolt af því að þessum áfanga sé náð og hlökkum til að þróa verkefnið enn frekar,” segir Stefán Már.

Vottun lífrænnar eggjaframleiðslu felur í sér að á búinu sem hýsir varphænurnar, Miklholtshelli II í Flóa, sé fuglunum eingöngu gefið vottað lífrænt ræktað fóður og önnur náttúruleg aðföng.

„Til að tryggja það enn frekar er öll aðfangakeðja búsins vottuð. Lífræn vottun kveður á um að varphænur í lífrænni framleiðslu skulu njóta útivistar þegar veður leyfir en þó aldrei minna en þriðjung líftímans. Með íslenskar aðstæður að viðmiði tóku forsvarsmenn Nesbúeggja skýr skref umfram slík lágmörk með byggingu sérstaks yfirbyggðs vetrargarðs, sem varphænurnar hafa afnot af. Rými fuglanna á innisvæði er 50% stærra en almennt viðgengst við hefðbundna eggjaframleiðslu og náttúrulegur undirburður er í húsinu. Allur annar aðbúnaður lýtur ströngum kröfum um velferð og vellíðan fuglanna. Þannig hafa þeir til dæmis frjálsan aðgang að rykbaði, hreiðri og setpriki innandyra,“ segir í tilkynningunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira