Innlent

Styðja áfram aðgerðir gegn Rússum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Vísir/Vilhelm

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segja að einhugur ríki innan ríkisstjórnarinnar um að halda áfram að styðja efnahagsþvinganir gegn Rússum.

Skýrsla sem gerð var fyrir samráðshóp stjórnvalda og sjávarútvegsins til að meta tjón vegna innflutningsbanns Rússa var rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun en skýrslan var gerð opinber í dag.

Rússar settu innflutningsbann á íslenskar vörur í fyrra til að svara þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að styðja efnahagsþvinganir Bandaríkjamanna og ESB-ríkja gagnvart Rússlandi.

Forystumenn sjávarútvegsins hafa gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir samráðsleysi í málinu og kallað eftir því að Ísland hætti að styðja þessar aðgerðir.

Að mati skýrsluhöfunda gæti tjónið orðið umtalsvert og hlaupið á þremur til átján milljörðum króna á næstu þremur árum. Hins vegar eru margir óvissuþættir, meðal annars hvað varðar áhrif efnahagslægðarinnar í Rússlandi á eftirspurn eftir íslenskum sjávarafurðum og þróun markaða almennt.

Skýrsluhöfundar telja þó ljóst að innflutningsbann Rússa komi hlutfallslega verst niður á Íslendingum miðað við aðrar þjóðir sem bannið nær til.

Afstaða ríkisstjórnarinnar óbreytt
Gunnar Bragi segir að einhugur ríki innan ríkisstjórnarinnar um að styðja áfram efnahagsþvinganir gegn Rússum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir mikilvægt að styðja þær byggðir sem verða fyrir mestu tjóni út af innflutningsbanninu. Vísir/Vilhelm

„Skýrslan sjálf breytir engu varðandi afstöðu ríkisstjórnarinnar,“ segir Gunnar Bragi. „Hún sýnir hins vegar þær tölur sem þarna eru í húfi. Þetta eru ekki fjörutíu milljarðar, eins og haldið var fram í upphafi. Þetta eru á bilinu sex til tólf milljarðar en auðvitað getur það eitthvað rokkað til. Allavega er ljóst að mögulegt tap er minna en menn héldu fram í upphafi. Engu að síður eru þarna milljarðar í húfi.“

Því hafi afstaða ríkisstjórnarinnar til málsins ekki breyst.

„Okkar lög varðandi efnahagsþvinganir eru þannig að þegar það eru einu sinni búið að setja slík lög eða samþykkja slíkar þvinganir þá gilda þær þangað til ákvörðun hefur verið tekin um annað. Það hefur ekki komið fram nein slík tillaga um að hætta að styðja þessar þvinganir. Þvert á móti tel ég að það sé einhugur um að halda þeim áfram, “ segir Gunnar Bragi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir mikilvægt að styðja þær byggðir sem verða fyrir mestu tjóni út af innflutningsbanninu.

„Það er augljóst að þetta hefur umtalsverð áhrif á einstaka byggðir,“ segir Sigurður. „Í því sambandi hafa Vopnafjörður og Djúpivogur verið nefndir. Ég tel að við verðum að skoða það mjög alvarlega hvort að við stjórnvöld þurfum ekki að koma þar til móts.“

Hann segir að ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu sammála því að halda áfram að styðja aðgerðirnar gegn Rússum.


Tengdar fréttir

Skýlaus krafa að ríkið bæti skaðann

Vopnafjarðarhreppur verður af stórum hluta tekna sinna á næsta ári vegna innflutningsbanns Rússa, að óbreyttu. Sveitarstjórn krefst aðgerða af hálfu stjórnvalda enda skaðinn vegna vanhugsaðrar aðgerðar. Vart það heimili á VopnafirðiAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira