Handbolti

Guðjón Valur: Ég vil fá meiri pressu á okkur sem fyrir eru í landsliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson fer fyrir strákunum á enn einu stórmótinu.
Guðjón Valur Sigurðsson fer fyrir strákunum á enn einu stórmótinu. vísir/anton brink

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði karlalandsliðsins í handbolta, var sérstakur gestur fyrstu útgáfu Handvarpsins 2016, hlaðvarps Vísis um stórmótin í handbolta. Guðjón Valur ræddi um um handbolta frá öllum hliðum í rúman klukkutíma og bar þar margt á góma.

Íslenska landsliðið hefur upplifað miklar hæðir og töluverðar lægðir undanfarin átta ár, allt frá verðlaunum á stórmóti til katastrófu eins og á HM í Katar í fyrra.

Strákarnir okkar hafa smám saman verið að dragast aftur úr allra bestu liðunum en þar er Danmörk gott dæmi. Fyrir 4-5 árum síðan var Ísland að vinna Danmörku nokkuð reglulega en undanfarin misseri hafa strákarnir okkar ekki átt séns í danska landsliðið.

Guðjón Valur viðurkennir að þessi lægð sé erfiðari en aðrar þar sem íslenska liðið var orðið eitt af fjórum til fimm bestu landsliðum heims á árunum 2008-2012.

Guðjón Valur í leik gegn Portúgal í síðustu viku. vísir/anton brink

Hvar eru leikmennirnir?
„Sú lægð var gríðarlega erfið. Það voru í raun bara Frakkar sem voru miklu betri en við og miklu betri en allir. Danir eru einfaldlega í dag eitt af topp þremur til fjórum liðum í heiminum auk Spánverja,“ segir Guðjón Valur.

„Restin er tiltölulega jöfn og við vorum nokkuð framarlega í þessum hópi. Ég sagði fyrir nokkrum árum að ég hafði áhyggjur af því hvað væri að koma upp hjá okkur.“

Leikmenn eins og Guðjón Valur, Snorri Steinn, Róbert Gunnarsson, Alexander Petersson, Aron Pálmarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson hafa borðið liðið uppi undanfarin ár. Oft er kallað eftir að yngt sé upp í liðinu en það er ekki svo einfalt, segir fyrirliðinn.

„Gagnrýnin á liðið sem kom á tímabili var að við erum að verða of gamlir. Hin liðin voru að verða betri og við áttum að fara að yngja upp en spurningin er með hverju ætlarðu að yngja liðið upp. Hvar eru leikmennirnir?“ segir Guðjón Valur.

„Ég er vonandi ekki í landsliðinu af því ég heiti Guðjón Valur Sigurðsson og er búinn að spila svona og svona marga landsleiki. Ég vona að ég sé í landsliðinu því ég er að sanna mig í hverri einustu viku og á hverjum einasta degi.“

„Það hefur ekki verið nógu mikil endurnýjun hjá okkur því til dæmis hefur deildin hérna heima farið afskaplega mikið niður getulega séð síðustu fimmtán árin,“ segir hann.

Guðjón Valur fagnar marki í bronsleiknum gegn Póllandi á EM 2010. vísir/getty

Ekki hægt að skamma menn fyrir að vera ekki nógu stórir
Guðjón Valur bendir á ungu leikmennina sem eru að koma upp hjá Dönum. Hann segir þá geta spilað nokkrar stöður á vellinum og bæði vörn á sókn á meðan þeir sem koma inn nýir hjá Íslandi spili annað hvort vörn eða sókn.

„Það er ekki hægt að skamma neinn fyrir að vera ekki nógu stór, en það er hægt að velta því fyrir sér hvers vegna við fáum ekki nógu marga líkamlega sterka stráka inn,“ segir Guðjón.

„Ef þú horfir til dæmis á Frakkana þá geta strákarnir sem eru að koma inn þar stokkið tvo metra upp í loftið eða eru tveir metrar á hæð og geta hlaupið jafn hratt og hornamaður.“

„Þeir eru gríðarlega líkamlega sterkir en eru ekki með sama leikskilning og Karabatic eða Narcisse. En þeir fá að læra af þeim,“ segir Guðjón.

Baráttan hjá strákunum okkar hefst á föstudaginn. vísir/anton brink

Erum ekki stór þjóð
Í íslenska liðinu í dag eru leikmenn á borð við Ólaf Guðmundsson og Rúnar Kárason sem eru gríðarlega öflugir handboltamenn hafa glímt við mikil meiðsli sem hafa komið í veg fyrir uppgang þeirra hjá landsliðinu.

„Það er kynslóð hjá okkur fædd svona 86 og 87 og upp í 90. Þeir eru allir með hæfileika en hafa verið gríðarlega óheppnir með meiðsli. Þar er kannski skarðið sem vantar hjá okkur. Margir þeirra lentu í alvarlegum meiðslum eins og bakmeiðslum eða hnémeiðslum,“ segir Guðjón Valur.

„Þetta eru strákar sem hefðu átt að koma inn og pressa meira á okkur sem fyrir eru. Það eru einfaldlega ekki til strákar eða menn sem hægt er að taka inn hjá okkur. Við erum náttúrlega ekki stór þjóð.“

Umræðan um að yngja upp í landsliðinu fer eilítið í taugarnar á fyrirliðanum því hann spyr sig hvaða leikmenn eru þetta sem eiga að taka stöður lykilmannanna.

Guðjón Valur hefur verið í landsliðinu síðan 1999. vísir/stefán

Góður eða lélegur
„Það er mörgum sem finnst þeir eiga að fá sénsinn og komast í landsliðið. Sumir hafa komið inn og ekki nýtt tækifærið eða ekki verið betri en þeir sem eru fyrir. Þegar er verið að kalla eftir að hópurinn sé yngdur upp þá finnst mér fólk einfaldlega vera að tala um eitthvað sem það veit ekkert um,“ segir Guðjón Valur.

„Það horfir bara á lista, sér aldur manna og segir að við séum of gamlir. Ég segi alltaf að það eigi ekki að horfa á hvaðan maður kemur, hvernig maður er vaxinn eða hvernig maður er á litinn. Annað hvort ertu góður eða lélegur.“

Guðjón Valur fagnar samt að vera kominn með stærri hóp og menn sem munu vonandi fyrir alvöru gera sig gildandi í landsliðinu á EM í Póllandi. Fyrirliðinn vill að menn standi sig svo hann og aðrir finni fyrir nýjum mönnum anda ofan í hálsmálið á sér.

„Í fyrsta skipti í langan tíma erum við með breiðan hóp, en ég hef svolitlar áhyggjur af því sem er að koma. Það er talað um efnilega stráka hér og efnilega stráka þar og ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér,“ segir hann.

„Ég vil fá meiri pressu á okkur sem fyrir eru. Það er erfitt að koma inn og sýna sig og sanna strax, en maður sér það á strákum sem eru að koma inn í landsliðið úr deildinni hér heima - og ég segi þetta með fullri virðingu án þess að setja mig á háan hest - að það er stórt getubil,“ segir Guðjón Valur Sigurðsson.

Allt hlaðvarpið má heyra í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Þeir yngri þurfa að fá tækifæri

Strákarnir okkar hefja leik á EM á föstudaginn en undirbúningi lauk formlega á sunnudaginn. Enn á eftir að skera niður um einn leikmann. Fréttablaðið leitaði til þriggja sérfræðinga til að fara yfir stöðuna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira