Handbolti

Lexi spilað þrisvar sinnum meira en lagt var upp með

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ljóst er að íslenska liðið þarf á Lexa að halda gegn Króötum á þriðjudaginn.
Ljóst er að íslenska liðið þarf á Lexa að halda gegn Króötum á þriðjudaginn.

Alexander Petersson var markahæstur í íslenska karlalandsliðinu í handbolta sem tapaði 39-38 gegn Hvít-Rússum í öðrum leik sínum á EM í Póllandi í dag. Alexander sagði í viðtali við Fréttablaðið fyrir mót að til stæði að hann spilaði stundarfjórðung í hverjum leik þar sem hann er þjakaður af meiðslum. Raunin hefur orðið önnur, þ.e. er varðar spiltímann.

Hægri skyttan hefur spilað 92 mínútur af þeim 120 mínútum sem íslenska landsliðið hefur leikið gegn Noregi og Hvít-Rússum sé miðað við upplýsingar á leikskýrslum evrópska handknattleikssambandsins. Um er að ræða 76 prósent leiktímans. 

Aðeins Björgvin Páll Gústavsson, Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson hafa spilað meira en Lexi á mótinu. Þessir fjórir hafa raunar spilað langmest.

Missti af HM 2013 og EM 2014 vegna meiðsla
„Við erum að tala núna um að láta mig spila í hverjum einasta leik en ekki mikið samt. Ætli ég spili ekki svona fimmtán mínútur í leik. Kannski stundum bara vörn en við verðum að sjá til hvernig þetta þróast hjá okkur,“ sagði Alexander fyrir mótið.

Hann hefur hins vegar spilað rúmlega þrisvar sinnum meira en til stóð og verður fróðlegt að sjá hvernig honum gengur að tjasla sér saman fyrir leikinn gegn Króötum á þriðjudaginn.

Alexander er þriðji markahæsti leikmaður landsliðsins eftir leikina tvo með níu mörk. Á mikilvægum köflum í leiknum í dag dró hann vagninn í sókninni á meðan Aron Pálmarsson var tekinn úr umferð. 

Lexi hefur verið þjakaður af meiðslum undanfarin ár og gaf meðal annars ekki kost á sér á HM á Spáni 2013 vegna meiðsla og missti sömuleiðis af EM ári síðar af sömu ástæðu.


Ekki missa af neinu sem gerist á EM. Fylgdu Vísi á TwitterFacebook og Snapchat (notendanafn: sport365). 
 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira