Innlent

Atli Helgason búinn að fá uppreist æru

Samúel Karl Ólason skrifar
Atli Helgason.
Atli Helgason. Vísir/Stöð 2
Fyrrverandi lögmaðurinn Atli Helgason, sem dæmdur var í sextán ára fangelsi fyrir manndráp fyrir fimmtán árum, hefur fengið uppreist æru. Hann sat inni í tíu ár vegna dómsins og sækist nú eftir því að fá málflutningsréttindi sín aftur.

Þegar Atli var dæmdur árið 2001 var hann sviptur málflutningsréttindum. Sagt var frá þessu í kvöldfréttum RÚV. Hann sat inni til 2010 og hefur starfað sem lögfræðingur síðan.

Samkvæmt 6. grein laga um lögmenn segir að óflekkað mannorð sé skilyrði fyrir því að starfa sem slíkur. Atli fékk uppreist æru fyrir áramót og með því óflekkað mannorð. Samkvæmt RÚV hefur hann lagt inn beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur um að réttindasvipting hans verði felld úr gildi.

Atli var dæmdur fyrir að verða Einari Erni Birgissyni, viðskiptafélaga sínum, að bana með hamri þann 8. nóvember árið 2000. Þeir rifust um peninga og barði Atli Einar í höfuðið með hamri og kom honum fyrir í hrauni nærri Grindavík, þar sem hann fannst viku síðar.

Atli vann mikið að málefnum fanga þegar hann afplánaði dóm sinn á Litla Hrauni, og var þar meðal annars trúnaðarmaður fanga og talsmaður þeirra út á við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×