Enski boltinn

Jordon Ibe hetja Liverpool á móti Stoke | Sjáið sigurmarkið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordon Ibe fagnar sigurmarki sínu.
Jordon Ibe fagnar sigurmarki sínu. Vísir/Getty

Jordon Ibe tryggði Liverpool 1-0 útisigur á Stoke City í fyrri undanúrslitaleik liðanna í enska deildabikarnum en spilað var á Britannia-leikvanginum í kvöld.

Ibe skoraði eina mark leiksins á 37. mínútu eftir að hann hafði komið inná sem varmaður eftir aðeins átján mínútna leik.

Seinni undanúrslitaviðureignin er á milli Everton og Manchester City og fer fyrri leikur þeirra fram á Goodison Park á morgun.

Liverpool missti tvo leikmenn meidda af velli í fyrri hálfleiknum. Jordon Ibe kom inn á fyrir Philippe Coutinho á 18. mínútu eftir að Brasilíumaðurinn tognaði aftan í læri.

Dejan Lovren fór líka tognaður af velli á 34. mínútu og kom James Milner inná fyrir hann. James Milner fór þó ekki í miðvörðinn heldur inn á miðjuna og Lucas Leiva datt aftur í vörnina við hlið Kolo Toure.

Lucas Leiva stóð sig vel í nýrri stöðu í vörninni og miðað við ástandið á miðvörðum liðsins er hann líklegur til að spila meira þar í næstu leikjumn.

Jordon Ibe var búinn að spila í 19 mínútur þegar hann skoraði og kom Liverpool yfir á 37. mínútu leiksins.

Joe Allen gaf stoðsendinguna á Jordon Ibe en ætlaði samt að skjóta sjálfur eftir laglegan undirbúning Adam Lallana.

Boltinn datt fyrir fætur Jordon Ibe sem átti ekki í miklum vandræðum með að skora enda vörn Stoke kominn út úr öllu skipulagi.

Liverpool var betra liðið í fyrri hálfleiknum og forystan því sanngjörn.

Stoke-liðið beit meira frá sér í seinni hálfleiknum en Liverpool fékk líka færi til að bæta við mörkum.

Pressan jókst þó þegar leið á ekki síst á síðustu tuttugu mínútunum þegar Liverpool-menn voru farnir að spila upp meira upp á það að halda fengnum hlut.

Liverpool lenti þó ekki í miklum vandræðum í lokin, spilaði skynsamlega og gaf Stoke-liðinu ekki mörg færi á sér. Jonathan Walters fékk þó fínt færi til að jafna metin í uppbótartíma.

Seinni leikur Liverpool og Stoke fer síðan fram á Anfield og verður hann spilaður þriðjudagskvöldið 26. janúar næstkomandi.

Það er síðan stutt í næsta bikarleik hjá Liverpool því liðið mætir Exeter í 3. umferð enska bikarsins á föstudaginn. 

Sigurmark Jordon Ibe á móti Stoke City

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira